10.8.2012 | 23:05
Jón Óskar, ljóðaúrval
Loks er komið út úrval ljóða Jóns Óskars. Tæpast mátti það nú seinna vera, en hann lést árið 1998. Jón Óskar var í hópi þeirra skálda, sem ruddu nútímanum braut í íslenskri ljóðagerð um miðja síðustu öld. Það gerði hann raunar ekki aðeins með frumortum ljóðum, heldur einnig með ljóðaþýðingum úr frönsku. Þeirra sér því miður ekki stað í þessari bók. Með þeim þýðingum opnaði hann þó Íslendingum dyr, sem flestum voru luktar.
Vissulega er fengur að ljóðaúrvali Jóns Óskars. En vonandi er það aðeins upphaf þess, að heildarsafn ljóða hans komi fyrir almennings sjónir, bæði frumort ljóð hans og ljóðaþýðingar.
Raunar fékkst Jón Óskar ekki aðeins við ljóðagerð og þýðingar. Hann þýddi skáldskap í lausu máli og ekki má gleyma endurminningabókum hans. Þar fjallar hann ekki síst um andrúmsloftið í bókmenntaheiminum hér á landi á tímum kalda stríðsins. Þessar bækur urðu bæði mér og ýmsum jafnöldrum mínum til nokkurs gagns og þroska. En eins og gengur og gerist á landi hér, varð Jón Óskar að gjalda fyrir þær skoðanir, sem þar koma fram. Íslensk menning er því miður ekki það stór í sniðum, að innan hennar rýmist gagnrýnin umræða.
En hvað um það; "laufin, trén og vindarnir," nefnist þetta ljóðaúrval Jóns Óskars. Senn mun laufið auðga litbrigði jarðar, trén lúta hausti og vindar gnauða, jafnt um stræti sem tún. Á meðan hygg ég, að margur muni eignast vin í þessari ágætu bók.
Athugasemdir
Þetta eru frábær tíðindi og skáldinu sæmandi.
Mér þætti gaman að mega hafa samband við þig vegna Jóns Óskars síðar.
kveðja,
G.
Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 10.8.2012 kl. 23:24
Sláðu endilega á þráðinn, Guðmundur.
Pjetur Hafstein Lárusson (IP-tala skráð) 11.8.2012 kl. 00:35
Jón Óskar var rjómagott skáld, eitt það albezta á sinni tíð.
Slíkir menn eru gefandi um flesta aðra fram.
Kær kveðja austur.
Jón Valur Jensson, 11.8.2012 kl. 04:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.