15.2.2007 | 11:15
Mér varð á í messunni
Nú varð mér á í messunni. Í spjalli mínu í gær, fjallaði ég um skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna varðandi líðan barna í ríkustu löndum heims. Þegar ég fór að athuga málið betur, koma í ljós nokkrar villur, sem stafa af ónákvæmni. Í fyrsta lagi er Svíþjóð ekki í efsta sæti, hvað varðar vellíðan barna, heldur í öðru sæti. Hollendingar tróna á toppnum, en Danir koma í þriðja sæti. Þetta breytir ekki miklu og alls engu, hvað varðar samfélagsgerð þeirra þjóða, sem best koma út úr könnunni og hinna, sem lakast standa. En rétt skal vera rétt. Þá virðist svo sem Íslendingar hafi tekið einhvern þátt í könnunni, en svo takmarkaðan, að ekki er hægt að telja okkur með, nema að nokkru leyti.
Við Íslendingar lendum í næst efsta sæti, hvað varðar líkamlega heilsu barna og er það vel. Reyndar óttast ég, að tannheilsa sé þar undanskilin. Hvað menntun varðar erum við slök, eða í 13. sæti af 24 þjóðum. Skyldi það ekki vera í samhengi við það, að við erum næst neðst á listanum, þegar kemur að samræðustundum barna og foreldra? Heimilin eru nefnilega sá grunnur, sem menntun er helst reist á. Þá kemur fram, að yfir 10% íslenskra barna þjáist af einmanaleik, sem er tvöfalt á við það sem gerist í hinum löndunum.
Merkilegt er, að íslensk yfirvöld hafa ekki séð ástæðu til að skila inn upplýsingum um efnahag fólks. Má ef til vill ekki fjalla um aukna misskiptingu veraldlegra gæða í tíð núverandi ríkisstjórnar? Og fyrst ég er farinn að tala á þessum nótum: Hvaða ályktun draga þeir Samfylkingarmenn, sem aðhyllast þá þjóðfélagsgerð, sem gjarnan er kennd við Tony Blair af því, að Bretar koma verst út úr þessari könnun?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.