Hvar stöndum við Íslendingar varðandi líðan barna?

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna hefur nú birt skýrslu um líðan barna í rúmlega tuttugu iðnvæddum ríkjum.  Skýrslan er kennd við Jonathan Bradshaw, prófessor við háskólann í Jórvík.  Í henni kemur fram, að líðan barna er áberandi verst í tveimur hinna iðnvæddu samfélaga, sem rannsökuð voru, þ.e.a.s. í Bretlandi og Bandaríkjunum.  Kemur þetta fram í áfengisdrykkju barna, eiturlyfjaneyslu þeirra og vantrú á umhverfið.  Börnin treysta ekki öðru fólki, hvorki í hópi jafnaldra sinna né annarra.  Þá er menntun barna í þessum tveimur af ríkustu og voldugustu þjóðum heims áberandi slök.

Nú er ekki ástæða til að ætla, að Bretar og Bandaríkjamenn séu ver af Guði gerðir en annað fólk.  Því liggur það væntanlega í hlutarins eðli, að skýringarinnar á niðurstöðu Bradshawskýrslunnar er að leita í samfélagsgerð þessara landa.  Athyglisvert er, að samkvæmt skýrslunni er líðan barna best í Svíþjóð.  Hvað er það þá, sem skilur að, annars vegar Bretland og Bandaríkin og hins vegar Svíþjóð?  Svarið liggur að mínu viti í því, að í Bretlandi og Bandaríkjunum ríkir sterk auðhyggja, sem sumir kjósa að kalla frjálshyggju, meðan Svíar búa við áratuga hefð jöfnuðar.

En hvar stöndum við Íslendingar í þessum efnum?  Ekki er að sjá, að það hafi verið kannað í skýrslu Bradshaws og er það skaði.  En við getum þó lesið í eyðurnar.  Neysluhyggja hefur stóraukist í landinu.  Þá hefur launamismunur aukist stórkostlega.  En á sama tíma og launamismunur eykst, minnkar eyðslumunur hinna ríku og þeirra, sem minna mega sín fjárhagslega.  Hvernig má það vera?  Jú, fólk slær einfaldlega lán, til að geta lifað um efni fram.  Svo má heldur ekki gleyma því, að enda þótt fjárhagur fólks standi í mörgum tilfellum undir eyðslunni, þá tekur hún tíma, sem oft hefði verið betur varið með börnunum. 

Samtímis þessu fjölgar nemendum í sérdeildum grunnskólanna.  Meðan foreldrarnir eru á eyðslufylliríi, hlaðast vandamálin upp hjá tilfinningalega vanræktum börnunum.  Og svo á skólinn að leysa málið.  Grunnskólinn er því ekki lengur einvörðungu menntastofnun heldur einnig uppeldisstofnun gagnvart stöðugt stækkandi hópi barna og unglinga.  Leiðir þetta ekki til slakari menntunar í öllu skólakerfinu?  Er ef til vill ástæða til að staldra við þá staðhæfingu, að unga fólkið hafi aldrei verið menntaðra en einmitt nú?  Eða er menntun eingöngu sérhæfing? Er það liðin tíð að menntun sé næring sálarinnar?  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pjetur Hafstein Lárusson

Heill og sæll Digurbarki.

Bestu þakkir fyrir svarið.  Þetta með raunveruleikaþættina og áhrif þeirra á a.m.k. sumt fólk, vakti athygli mína.  Vandamálið er síður en svo bundið við Bretland.  Hér heima eru margir, sem lifa sig svo inn í þetta, að það er með ólíkindum.  Hins vegar held ég, að flestir Íslendingar hirði betur um líkamlegar þarfir barna sinna, en þú lýsir að tíðkist á Bretlandi.  Aftur á móti er ég ekki eins viss um andlega þáttinn. 

Það er smá misskilningur í þessu spjalli mínu, sem ég leiðrétti einhvern næstu daga.  T.d. komu Hollendingar best út úr þessari könnun; Svíar voru í öðru sæti.  En það breytir ekki miklu.  En eitt af því, sem fram kom, er að Íslendingar voru í næst neðsta sæti, hvað varðaði samræður við börn sín.  Þetta er hrikalegt, en ég óttast því miður, að það sé rétt.

Þú segir Íslendinga fullvissa um það, að hjá okkur sé allt best, meðan Bretar séu sannfærðir um, að allt sé verst hjá þeim.  Má vera.  En það er þá huggun harmi gegn, að milli Íslands og Bretlands eru Færeyjar.  Þar býr þjóð í jafnvægi.  En láttu það ekki fréttast meðal Tjalla; þeir gætu tekið upp á því, að fara aftur að seilast í annarra manna lendur.

Pjetur Hafstein Lárusson, 14.2.2007 kl. 22:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband