18.11.2011 | 13:04
Undarlegar viðurkenningar
Fyrir skömmu sá einhver nefndin, með forstöðumann Orðabókar Háskóla Íslands í broddi fylkingar, ástæðu til að heiðra útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins. Tilefni þess var, að hann hafði ákveðið, að framlag Íslands til evrópsku söngvakeppninnar skyldi sungið á íslensku. Undarlegt er, að menn skuli hljóta viðurkenningu fyrir það eitt, að gera sér grein fyrir þjóðerni sínu.
Á s.k. "Degi íslenskrar tungu", 16. nóvember fengu svo afdankaðir skallapopparar, sem áttu sitt blómaskeið fyrir hartnær hálfri öld, sérstaka viðurkenningu menntamálaráðherra, fyrir að hafa alla tíð sungið á móðurmáli sínu. Var af því tilefni rætt við einn þeirra í fjölmiðlum, hvar hann hefnur nokkurt yndi af að sýna sig. En það er önnur saga.
Í máli þessa skallapoppara kom fram mikil sjálfsánægja og taldi hann sig og félaga sína hafa synt á móti straumnum, með því að syngja á íslensku á áttunda áratug síðustu aldar. Þetta er alrangt. Nefna má fjölda dægurlagahljómsveita og skyldra fyrirbæra, frá þessum tímum, sem sungu lög sín á íslensku: Ríó tríó, Þokkabót, Þrjú á palli, Nútímabörn, Áhöfnina á Halastjörnunni o.s.frv, o.s.frv.
Hvers vegna taldi menntamálaráðherra sérstaka ástæðu til að heiðra Stuðmenn í tilefni dagsins? Ekki veit ég. Hitt veit ég, að daginn eftir hélt sá þeirra félaga, sem hældi sér og sínum í fjölmiðlum í tilefni þessa vafasama heiðurs, veislu til að fagna útkomu ævisögu sinnar. Er Kata litla í menntamálaráðuneytinu ef til vill farin að vinna í hjáverkum á auglýsingastofu skallapoppara?
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
Fyrirgefðu, en mér finnst ekkert að því að hin langlífa og farsæla hljómsveit Stuðmenn fái viðurkenningu fyrir sitt framlag til viðhalds og notkunar íslenskrar tungu.
Stuðmenn voru stór ballhljómsveit, ekki þjóðlagatríó. Það var ekki sjálfgefið að stórar hljómsveitir á dögum þeirra syngju á íslensku.
Athyglisvert er að sjá margítrekaða notkun orðsins "skallapopparar" um hljómsveit sem upphaflega var skipuð ungum mönnum en reyndist hafa burði til að lifa vel og lengi.
Af hverju er ekki notað orðið "skallaskáld" og "skallarithöfundar" um marga af þeim sem njóta listamannalauna og eru komnir vel til ára sinna?
Eða orðið "skallaskáld" um Halldór Laxness eftir að hann fékk Nóbelsverðlaunin, þá kominn vel á sextugsaldurinn?
Ómar Ragnarsson, 18.11.2011 kl. 21:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.