Hálft kíló af hamingju

Ég þekkti einu sinni ágætismann, sem því miður fór svolítið á skjön við hamingjuna eins og gengur.  En þessi góði maður hafði húmor, hvað sem á gekk.  Og þegar verst stóð á fyrir honum, sagði hann gjarnan: „Það vildi ég, að ég ætti, þó ekki væri nema hálft kíló af hamingju."  Hann sagði þetta ekki vegna þess, að hann tryði því, að hægt væri að slá máli á hamingjuna, hvort heldur væri á vog eða með málbandi; þvert á móti.  En eins og ég sagði, maðurinn var húmoristi.

Nú er þessi vinur minn löngu kominn yfir móðuna miklu, en mér flýgur oft í hug, þetta hálfa kíló af hamingju, þegar ég les eða hlusta á fréttir líðandi stundar.  Hvernig skyldi standa á því, að blaðamenn eru alltaf að fræða okkur hin um peningaeign fólks úti í bæ?  Skiptir það mig einhverju máli, meðan ég sjálfur á í mig og á, hvort hann Nonni Ben. eða hvað hann nú heitir, slengir milljarði í flugfélag eða hlutabréf í banka?  Tæpast.   Aftur á móti skiptir það mig máli, ef ég skyldi rekast á ummræddan Nonna Ben. á förnum vegi, og eiga við hann orð, að hann verði þá í þokkalegu skapi og sé viðræðuhæfur um eitthvað annað og uppbyggilegra en peninga.

Mér leiðast opinberar umræður um peningaeign fólks, einkum og sér í lagi ríks fólks.  Að vísu hef ég mínar skoðanir á fyrirbærinu sem slíku, en þarna fæ ég engu um breytt.  Aftur á móti mætti gjarnan flytja fréttir af fjármálum bágstaddra.  Það kæmi sér t.d. vel fyrir mig, þegar ég á leið í bæinn, ef ég vissi að einhvern rónann sárvantaði skotsilfur fyrir matarbita og bragðbæti í fljótandi formi.  Ég gæti þá gaukað að honum lítilræði.  En sennilega skiptir þetta ekki máli; rónar eru æfinlega auralausir, hvort sem er.

En sem sagt, gott fólk, er ekki betra að leita að þessu hálfa kílói af hamingju, sem vini mínum auðnaðist því miður aldrei að finna, heldur en eltast við fréttir af því, sem mölur og ryð granda hvort sem er?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband