11. september 1973 og 2001

11. september er svartur dagur á spjöldum sögunnar.  Þennan dag árið 1973 steypti herinn í Chile undir forystu Pinochets hershöfðingja löglega kjörinni stjórn sósíalista í landinu.  Valdaránið var gert í skjóli Bandaríkjanna og með dyggum stuðningi leyniþjónustu þeirra, CIA.

Auðvitað fylgdi þessum atburðum mikið blóðbað.  Þúsundir manna létu lífið meðan ógnarstjórn Pinochets sat að völdum til ársins 1990.  Auk þess varð landið tilraunastöð þess óhefta fjármálavalds, sem á máli hægrimanna kallast „frjálshyggja" og við Íslendingar súpum nú seyðið af, sem og fleiri þjóðir.

11. september árið 2001 urðu Bandaríkjamenn svo fyrir hryðjuverkaárás múslimskra öfgamanna, með árásunum á New York og Wasington.  Enn létu þúsundir saklausra manna lífið.

Báðir þessir atburðir, valdaránið í Chile 1973 og árásin á Bandaríkin 2001 ættu að kenna okkur, að það er sama hvaðan illt kemur; gegn því ber að vinna.

En það er ekki sama hvernig það er gert.  Mannleg reisn verður ekki varin með aðferðum þeirra, sem lúta svo lágt, að virða hana einskis.  Við þurfum að skilja eðli og orsakir ofbeldis, til að sigrast á því. 

Það væri barnaskapur að halda, að ekki sé þörf fyllsta öryggis, t.d. í samgöngumiðstöðvum og víðar.  En á sama tíma og þess er gætt, verður að forðast það, að hella olíu á eldinn, líkt og Vesturlönd gera nú í Afganistan, Írak og Lýbíu.  Og á sama tíma standa Rússar og Kínverjar vörð um ofbeldisstjórnina í Sýrlandi.

Það er sama hverju nafni stórveldi nefnast eða hvaða dularhjúpi þau sveipa hagsmunastreð sitt; þau eru ævinlega til bölvunar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband