17.6.2011 | 19:32
Ríkisútvarpið heldur slakt á vaktinni
Í dag eru liðin 200 ár frá fæðingu Jóns Sigurðssonar og 100 ár frá stofnun Háskóla Íslands. Maður hefði nú haldið, að Ríkisútvarpið, eini ljósvakamiðill landsins, sem hægt er að gera dulitlar kröfur til, hvað efni varðar, minntist slíkra tímamóta með viðeigandi hætti. Því miður brást Ríkisútvarpið þessum væntingum.
Að vísu var fluttur þáttur um Jón Sigurðsson í umsjón þess mæta sagnfræðings Einars Laxness. En þátturinn sá arna var endurtekinn, frá árinu 1979. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og ýmsir orðið til, að skoða Jón Sigurðsson og þjóðferlsisbaráttuna í heild sinni, í nýju ljósi.
Breyttar hugmyndir margra um fullveldishugtakið, hugsanleg aðild Íslands að Evrópusambandinu, væntanleg breyting á stjórnarskránni, hnignun háskólamenntunar o.s.frv.; allt kallar þetta á fræðslu og umræður, þar sem þáttur Ríkisútvarpsins ætti að vera stór.
Vissulega hefur Ríkisútvarpið sinnt þessum málefnum nokkuð, en allt er það þó í skötulíki. Og dagskrá þess í dag, er stofnunni ekki til sóma.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Mér hefur oft fundist ámælisverð þessi gegndarlausa persónudýrkun á Jóni Sigurðssyni. Svona hallelúja minnir á dýrkun á Hitler og Stalín. Þá má bæta Maó og ýmsum skelfilegum einræðisherrum sem margar þjóðir vilja gleyma.
Sjálfur var Jónsi maður, maður sem átti sína drauma sem því miður rættust nema örfáir. Hann deyr nánast gjaldþrota eftir að Danir reyndu að svelta hann til hlýðni eftir niðurlægingu þeirra eftir Slesvíkurstríðið 1864.
Borgarastéttin á Íslandi hóf Jónssigurðssonardýrkunina um aldamótin 1900. Hún var að koma betur ár sinni fyrir borð og fannst ágætt að fleyta sér áfram með því að vísa í löngu látinn mann sem var henni að skapi. Ekki var framfarahugurinn meiri en svo að þessi sama borgarastétt reyndi að standa í vegi fyrir hvers kyns mannréttindabótum nema kæmi þeim sjálfum að gagni.
Annars hefi eg bloggað um þessa dæmalausu Jónssigurðssonardýrkun sem mér finnst ganga eins og draugagangur á tímum sem þó ætti að heita upplýsingaöld hin yngri.
Jón var afburðagreindur bæði á sviði fræða sem stjórnmála. En hann var ekki eyland. Að baki honum stóðu fjölmargir samherjar bæði sem stóðu fast að baki honum hvað skoðanir varðar og einnig fjárhagslega eins og Eiríkur Magnússon bókavörður í Cambridge em forðaði honum frá algjörri niðurlægingu. Hver kannast við Eirík í dag?
Góðar stundir
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 18.6.2011 kl. 19:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.