Gjalla nú lúðrar Noregskonungs

Víða er þess getið í fornum sögum, að kappar íslenskir, gjarnan skáldmæltir, hafi þjónað Noregskonungum og fórnað blóði sínu þeim til samlætis.  Nægir þar að nefna Þormóð kolbrúnarskáld er féll við Stilkastaði ásamt herra sínum og vini, Ólafi konungi helga.  Varð það hans bani, svo sem lesa má í Fóstbræðrasögu, að hann fékk ör í brjóst sér.  Dró hann örina út og sá, að feitt var á henni kjötið.  Mælti hann þá hin fleygu orð: "Vel hefur konungurinn alið oss, hvítt er þessum karli um hjartarætur".  Féll svo dauður til jarðar.

Enn á konungur Noregs í stríði, að þessu sinni austur í Afganistan.  Er því  að vonum, að honum verði nú hugsað til hinna hraustu frænda sinna norður hér og leiti fulltingis þeirra í ófriði þessum. 

Ungir skulu kóngsmenn vera og hraustir vel og því eðlilegt, að konungur leiti sér kappa í menntaskólum.  Þar er og skálda að vænta, þó tæpast sextán í fjórða bekk, eins og Tómas kvað um forðum.  En allt er hey í harðindum.  Skulu kóngar jafnt fyrir það líða sem aðrir.

Óhætt mun að segja, að oss Íslendingum sé heiður sýndur af höldi frænda vorra.  Er því sómi af því, að sveinar hans afli honum liðsinnis í skólastofum, þar sem við menntum æskulýðinn.  Sóttdauður skyldi sá einn, er ei fær vopnum valdið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband