Armæða Samfylkingarinnar

Enn hrynur fylgið af Samfylkingunni, ef marka má skoðanakönnunina, sem Blaðið birti í dag og er nú komið niður fyrir fimmtung kjósenda.  Ýmsir hafa leitað á þessu skýringa og sýnist sitt hverjum.  Sumir kenna Ingibjörgu Sólrúnu um ófarir flokksins.  Ég tel það að ýmsu leyti ómaklegt.  Hvað sem segja má um pólitík hennar, þá kjósa flokkar sér leiðtoga í samræmi við líðandi stund.

Samfylkingin er bræðingur úr Alþýðuflokknum, Kvennalistanum og „intellíugensíuarmi" Alþýðubandalagsins.  Alþýðuflokkurinn átti rætur sínar í verkalýðshreyfingunni, Kvennalistinn sótti fyrst og fremst fylgi sitt til borgaralegra menntakvenna og „intellíugensíuarmur" Alþýðubandalagsins var eingangraður og í litlum tengslum við almenning í landinu.  Það fólk, sem þarna var, fyrirleit Alþýðuflokkinn, m.a. vegna langs stjórnarsamstarfs hans við Sjálfstæðisflokkinn í „Viðreisninni" 1959 til 1971.  Auk þess taldi þetta fólk sig hafa algilda uppskrift af réttlætinu og sannleikanum upp á vasann, fyrir nú utan gáfurnar; þær voru beinlínis yfirþyrmandi, að áliti þess sjálfs.  Kratarnir voru margir hverjir með móral eftir „Viðreisnarárin", auk þess, sem þeir voru farnir að trúa því sjálfir, að þeir væru hálfgerðir kjánar, samanborið við snillingana í gáfumannahópi Allaballanna.  Þetta kom t.d. vel í ljós í framboði Nýs vettfangs til borgarstjórnar árið 1990.

En var sameining flestra vinstri manna í Samfylkingunni þá tómt rugl?  Alls ekki.  Hún var rökrétt framhald þess, að klofningur vinstri aflanna hafði í gegnum tíðina, tryggt Sjálfstæðisflokknum þá yfirburðarstöðu í íslenskum stjórnmálum, sem annarstaðar á Norðurlöndum var í höndum jafnaðarmanna.  Gallinn var bara sá, að í stað þess að gera upp deilumál liðina áratuga, s.s. hermálið, var öllum slíkum óþægindum sópað undir teppi. 

Annað mein fylgdi stofnun Samfylkingarinnar; hún var sameining forustmannanna, ekki fólksins.  Menn skiptu bróðurlega með sér þingsætum og öðrum vegtyllum, en gleymdu fólkinu sem völdin byggðust á.  Þetta hafði m.a. þær hrikalegu afleiðingar, að nú eru öryrkjar og eftirlaunaþegar alvarlega að huga að stofnun stjórnmálaflokks.  Og eru þó tveir flokkar fyrir í landinu, sem telja sig sérlega umboðsmenn þeirra, sem minna mega sín.

Megin afleiðing þess, að gömul deilumál voru ekki gerð upp, þegar Samfylkingin var stofnuð, er sú, að flokkurinn á erfitt með að móta sér stefnu í mikilvægum málum.  Það er slegið í og úr í stóriðjumálum, stefnan í menntamálum er óljós og kvótamálin tæpast til umræðu, síst af öllu í landbúnaði.  Það er helst, að flokksforustan sé einhuga, þegar hækka á laun þingmanna.  Evrópumálin eru svo sér kapituli út af fyrir sig.  Það er nefnilega deginum ljósara, að við Íslendingar getum rifist endalaust um það, hvort við eigum að ganga í Evrópubandalagið eður ei.  En það breytir engu.  Smáþjóðir eins og Íslendingar móta sér einfaldlega ekki utanríkisstefnu, það gera stórveldin.

Jæja, nóg í bili.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Pétursson

Ingibjörg Sólrún hefur staðið sig vel sem Form.Samfylkingarinnar.Hins vegar tel ég að stanslaus rógur og níð fjölda liðsmanna íhaldsins  gegn Ingibjörgu sé því miður farið að hafa veruleg áhrif á dvínandi fylgi flokksins.Árásirnar á Ingibjörgu líkjast rógsherferðum þeim sem beitt var árum saman af Framsóknarfl. gegn Gylfa Þ.Gíslasyni á sínum tíma.Við þessu verða þingmenn og annað forustulið Samfylkingarinnar að bregast.Þétta varnarmúrinn og sækja fram og fella níðstangir íhaldsins.  

Kristján Pétursson, 6.2.2007 kl. 23:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband