5.2.2007 | 21:38
Velkomnir Færeyingar
Þá eru frændur okkar og vinir, Færeyingar að fara að opna sendifulltrúaskrifstofu í Reykjavík. Formsins vegna verður hún auðvitað að heyra undir danska utanríkisráðuneytið, enda Færeyjar hluti danska konungsdæmisins-- enn sem komið er.
Þetta er mikið fagnaðarefni allra Færeyingavina á Íslandi. Bæði munu samskipti þjóðanna aukast og eins er hér stigið skref í átt til sjálfstæðis Færeyja.
Ég hef þrisvar verið í Færeyjum, síðast í desember. Þá var ég í Nes kommúnu, sem er 1200 manna byggð, eða réttara sagt þrjár byggðir á Austurey. Stærsta byggðin í þessu sveitarfélagi heitir Toftir og þar búa um 900 manns. Hinar byggðirnar heita Nes og Saltnes.
Nes kommúna er vinabær Hveragerðis, en ég er formaður Norræna félagsins þar og hef því átt mjög ánægjuleg samskipti við fólkið í Nes kommúnu. Mér er óhætt að mæla með því, að landinn bregði undir sig betri færinum og heimsæki Færeyjar. En í guðana bænum, skiljið streituna eftir heima, hún þekkist ekki í Færeyjum. Til gamans má geta þess, að jeppa, sem við Íslendingar notum gjarnan til upphafningar á eigin ágæti, kalla Færeyingar Íslandsbíla, og brosa út í annað.
Athugasemdir
Ég tek heilshugar undir með þér að bjóða Færeyinga velkomna. Hef einu sinni dvalist í Færeyjum 1972 og er það með minnisstæðustu utanförum mínum.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 5.2.2007 kl. 21:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.