„Sumar raddir", Jónas Jónasson á Norður-Írlandi 1979

Okkur berast endalausar fréttir af styrjöldum og annarri óáran utan úr hinum stóra heimi.  Nú orðið þykja beinar sjónvarpsútsendingar á manndrápum jafnvel ekkert tiltökumál.  Við horfum á fólk drepið á götum Kabúl eða Bagdad, heyrum jafnvel neyðaróp þess, meðan það er að deyja.  Það fer rétt bærilega um okkur, á meðan á þessu gengur og kaffið bragðast vel.

Þessar beinu útsendingar á dapurlegum örlögum meðbræðra  okkar og systra, eru löngu hættar að hreyfa við nokkrum manni.  Fyrir okkur er þetta bara eins og hvert annað sjónverpsefni, leikið eða ekki leikið.

Íslenskir fjölmiðlar eru ekki að hafa fyrir því, að fræða okkur um styrjaldasvæði, sem þeir flytja fréttir frá.  Þessu er öðruvísi háttað á hinum Norðurlöndunum.  Opinberar sjónvarpsstöðvar þar, flytja ýtarlega fréttaskýringaþætti um þau landsvæði, sem eru í fréttum hverju sinni, sérstaklega ef það er vegna styrjalda.  Þess vegna eru sjónvarpsáhorfendur á hinum Norðurlöndunum upplýstir, meðan þeir eru óupplýstir hér á landi.

En stundum blikar ljós í myrkrinu.  Mig minnir að það hafi verið árið 1979, að Jónas Jónasson útvarpsmaður, fór til Norður-Írlands, til að kynna hlustendum útvarpsins ástandið þar.  Úr þessari ferð urðu nokkrir þættir, sem nú eru endurteknir á laugardagsmorgnum á Rás 1, Ríkisútvarpinu, í þættinum „Sumar raddir".

Jónas fer þá leið í þættinum, að ræða við venjulegt fólk, sem á einn eða annan hátt varð fyrir barðinu á átökunum á Norður-Írlandi, sem þá höfðu staðið í rúman áratug.  Ástæða er til að mæla með þessum þáttum Jónasar.  En því miður er lítil von til þess, að þetta verði leikið eftir honum af íslenskum fjölmiðlum.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband