21.12.2010 | 17:52
Samviska og liðsandi
Nokkurs taugatitrings virðist gæta meðal stjórnarliða á Alþingi, vegna hjásetu þriggja þingmanna Vinstri grænna við afgreiðslu fjárlaga. Ekki síst virðist hið viðkvæma hjarta þingmanns Samfylkingarinnar, Ólínar Þorvarðardóttur, hafa orðið fyrir nokkurri röskun. Er það að vonum, enda Ólína hæglát kona og ekki vön stórræðum.
Einkum virðist Lilja Mósesdóttir fara fyrir hið viðkvæma brjóst Ólínar. Hefur hún nú sent stjórnarþingmönnum bréf, sem Morgunblaðið komst í og birti. Þar sakar hún Lilju um skort á liðsanda.
Nú skal játað, að ég veit ekki betur en, að þingmenn séu bundnir af samvisku sinni og engu öðru. Gott ef þetta er ekki bundið í stjórnarskrána. En sennilega erum við Ólína Þorvarðardóttir ekki á einu máli um hugtök eins og samvisku og liðsanda.
Samvisku minnar vegna kemst ég þó ekki hjá því, að óska bæði Lilju Mósesdóttur og Ólínu Þorvarðardóttur gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Vonandi spillir það ekki liðsandanum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Gleðileg Jól.....
Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 25.12.2010 kl. 11:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.