Vegatollar eru rugl!

Ég bý í Hveragerði.  Þaðan eru 35 km til Reykjavíkur.  Bættar samgöngur hafa orðið til þess, að í raun er Hveragerði orðið að reykvísku úthverfi.  Ég kalla það stundum Blesugróf eystri.  Stór hluti Hvergerðinga starfar í Reykjavík.  Þess utan er verslun harla takmörkuð austan fjalls.  Það eitt út af fyrir sig, gerir mörgum nauðsynlegt, að fara oftar til Reykjavíkur en ella. 

Í raun má segja, að hið forna landnám Ingólfs sé eitt atvinnusvæði.  Það er löngu orðið tímabært, að gera þetta svæði að einu sveitarfélagi.  Fyrirhugaðir vegtollar til Reykjavíkur eru því rugl.

Seinast bloggaði ég um heimskuna og stjórnmálin.  Hugmyndir stjórnvalda, um að leggja vegatolla á þá, sem leið eiga til Reykjavíkur, höfuðborgar landsins, er aðeins enn eitt dæmið um samhengið milli heimskunnar og stjórnmálanna.  Og það er ekki nóg með, að Reykjavík sé höfuðborg landsins; meira en helmingur landsmanna býr í borginni og útbæjum hennar.  Þar eru auk þess nær allar þær stofnanir, sem landsmenn þurfa að sækja margskonar þjónustu til.

Tökum einfalt dæmi:  Ég á oft erindi í Þjóðarbókhlöðuna.  Engum hefur, mér vitanlega komið til hugar, að selja aðgang að þeirri stofnun.  Hver eru rökin fyrir því, að ég þurfi að greiða 490 krónur fyrir það eitt, að nýta mér þjónustu þeirrar stofnunar?

Þegar ég var í Miðbæjarskólanum forðum tíð, tók einn sögukennara minna vegatolla miðalda sem dæmi um fullkomna heimsku þeirra þjóðfélagshátta, sem gerðu aðalsmönnum kleift, að skattleggja menn, fyrir það eitt, að bregða sér af bæ.  Má ekki krefjast þess af stjórnmálamönnum okkar tíma, að þeim endist vitsmunir, til að reyna ekki að endurvekja miðaldir?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hverning ætli það væri að setja upp útibú frá Þjóðarbókhlöðunni á Eyrarbakka Hellu eða Hvolsvelli. Það er líka mikið til af húsum í Skógum.

Gissur Jóhannesson (IP-tala skráð) 12.12.2010 kl. 22:46

2 identicon

Pétur! Þetta með vegatolla er þekkt dæmi víða erlendis, t.d. í Noregi.

Frá Þrándheimi og út á flugvöll, sem er örstutt leið, eru til dæmis tvö tollhlið. Svo er annað rétt suðvestan við borgina þannig að þau eru þrjú rétt þar hjá.

Ekki heyrði ég fólk kvarta mikið yfir þessu enda ódýrt að aka um þau ef þú ert með afsláttarkort (eða tæki í bílnum sem sendir merki til tollhliðsins sem skráir allt hjá sér. Þú þarft ekki einu sinni að stoppa til að borga!).

Hinn möguleikinn er auðvitað að búa við sömu akstursskilyrði og eru núna. Viltu það?

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 13.12.2010 kl. 16:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband