Kjósum til stjórnlagaþings

Það er löngu orðið ljóst, að núverandi stjórnarhættir á Íslandi eru blekking.  Hrunið 2008 var aðeins staðfesting þess.  Við búum ekki við þrískiptingu valdsins, enda þótt stjórnarskráin kveði svo á, að þannig skuli málum háttað.  Framkvæmdavaldið ber ægishjálm yfir löggjafarvaldið og það ríkir einnig yfir skipan dómara.

Stjórnarskráin, sem að mestu leyti er frá árinu 1874 er þó síður en svo marklaust plagg.  En hún þarfnast endurskoðunar.  Með endurreisn alþingis sem ráðgjafaþings árið 1845, hófst vegleið þjóðarinnar í átt að lýðræði.  Sú vegleið hefur þó verið þyrnum stráð eftir að flokkskerfið kom til sögunnar, sérstaklega í þess núverandi mynd, sem rekja má aftur til fyrri heimsstyrjaldar.

Stjórnmálaflokkarnir hafa í æ ríkara mæli tekið á sig mynd þvílíkra hagsmunasamtaka, að orð eins og skipulögð glæpastarfsemi leita á hugann í því sambandi.  Hvaða stjórnmálaflokkur getur í raun státað af því, að hafa látið flokkshagsmuni víkja fyrir þjóðarhagsmunum? 

Auðvitað hafa stjórnmálaflokkarnir gert allt, sem í þeirra valdi stendur, til að veikja væntanlegt stjórnlagaþing.  Það eitt, að hafa landið allt eitt kjördæmi, gerir fólki t.d. mjög erfitt um vik, að kynna sér skoðanir frambjóðenda.  Engu að síður hvet ég landsmenn til að kjósa til stjórnlagaþings.  Ef kosningaþátttaka verður lítil munu stjórnmálaflokkarnir hafa samþykktir stjórnlagaþings að engu.  En mikil kosningaþátttaka setur þeim þrengri skorður.

Óbreyttir stjórnarhættir munu leiða þjóðina til glötunar; því fær ekkert breytt.  Vera má, að stjórnlagaþingið sé veik von.  En það er þó skárri kostur, að hanga á hálmstráinu, en að hrapa fyrir björg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Daníelsson

Bara ein athugasemd, Pétur. Kosningaþátttakan verður tæpast úrslitaatriði. Meginspurningin er þessi: Nær stjórnlagaþingið að skrifa nýja stjórnarskrá (eða breyta þeirri gömlu) í góðu samkomulagi og allt að því einróma?

Takist það, skiptir kjörsóknin ekki lengur neinu máli. Þá verður mestöll þjóðin trúlegast sammála niðurstöðunni. Og þingið leyfir sér þá ekki að setja puttana í niðurstöðurnar.

En verði ný stjórnarskrá samþykkt með naumum meirihluta, verður lítil kosningaþátttaka rifjuð upp. Og þá fáum við hvort eð er enga nýja stjórnarskrá í fyrirsjáanlegri framtíð.

Meginhugsun þín er þó rétt að því leyti, að lítil kjörsókn gæti orðið til þess að fyrirfram ákveðnir listar fái furðu marga fulltrúa. Og þar með er auðvitað allt unnið fyrir gýg.

Jón Daníelsson, 27.11.2010 kl. 00:11

2 identicon

Ef almenningur nennir ekki að leggja á sig smá vinnu við að hugsa sjálfstætt til að auka líkur á beinni aðkomu sinni að lýðræðinu, þá kannski eigum við ekki betra skilið en einræðisstjórn.

Dagný (IP-tala skráð) 27.11.2010 kl. 18:47

3 identicon

Ein smávægileg viðbót.

Bendi á pistil sem ég birti á jondan.is eftir lokun. Ákvað fyrir löngu að birta ekki þær hugleiðingar fyrr en eftir lokun kjörstaða.

Jón Daníelsson (IP-tala skráð) 28.11.2010 kl. 04:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband