8.11.2010 | 23:20
Njósnastarfsemi bandaríska sendiráðsins
Drottnunarsýki nærist ævinlega á fjandskap og ótta. Þetta á jafnt við um einstaklinga og ríki. Þannig fá stórveldi ekki staðist til lengdar, nema þau eigi sér óvini, sanna eða ímyndaða.
Á sínum tíma nærðust Bandaríkin og Sovétríkin á því, að fjandskapast út í hvort annað og draga heiminn með sér í þann darraðardans. Svo hrundu Sovétríkin og Bandaríkin urðu sér úti um nýjan andstæðing; múslimaheiminn.
Munurinn á Sovétríkjunum og múslimaheiminum er sá, að Sovétríkin tefldu ákveðna refskák við Bandaríkin, þar sem vissar reglur voru í heiðri hafðar. Þetta gildir ekki eftir hrun Sovétríkjanna. Múslimaheimurinn hefur einfaldlega ekki sambærileg völd og Bandaríkin og hagar því baráttu sinni gegn þeim, með öðrum hætti en Sovétríkin gerðu.
Raunar er ekki rétt að tala um múslimaheiminn í þessu sambandi. Múslimar eru æði sundraðir í afstöðu sinni til Bandaríkjanna og Vesturlanda yfirleitt. En þeir úr þeirra hópi, sem hatast við Vesturlönd, vita sem er, að þeir geta ekki ógnað heilum ríkjum, aðeins einstaklingum. Þess vegna beita þeir skæruhernaði með viðeigandi sprengjutilræðum, hvort heldur þeir fljúga farþegaþotum á turna í New York eða fara fram með minni látum.
Það verður því að teljast skiljanlegt, að Bandaríkjamenn óttist um öryggi sendiráða sinna hvar sem er í heiminum. Þeir vita sem er, að þeir eru víða hataðir, rétt eins og önnur yfirgangsöfl fyrr og síðar. Þessi ótti þeirra afsakar þó ekki njósnir um fólk, sem hefur það eitt til sakar unnið, að ganga suður Laufásveginn. Og reynist það rétt, sem ýmislegt bendir til, að Bandaríkjamenn haldi uppi njósnasveit í sendiráði sínu í Reykjavík, í þeim tilgangi, að njósna um vegfarendur, sem leið eiga um Laufásveginn, þá er það mjög alvarlegt mál. Enn þá alvarlegra er, ef slíkar njósnir fara fram með alstoð íslenskra þegna.
Samskonar mál eru þessa dagana að koma upp í Noregi og Svíþjóð. Sænsk stjórnvöld hafa þegar vísað málinu til ríkissaksóknara og dómsmálayfirvöld hér á landi, hafa falið ríkislögreglustjóra að rannsaka málið. Þetta eru skiljanleg viðbrögð.
Vonandi verður þetta mál til þess, að flýta fyrir rannsókn á því, hvernig þeir kumpánar, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson tróðu Íslandi á lista hinna viljugu þjóða", við innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak. Það eru tengsl á milli þess máls og meintra njósna bandaríska sendiráðsins í Reykjavík nú.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.