Sameining Norðurlanda

Samkvæmt nýlegri skoðanakönnun, eru u.þ.b. 40% Norðurlandabúa hlynntir stofnun norræns sambandsríkis.  Ekki veit ég, hversu mikils fylgis hugmyndin nýtur á Íslandi, en ég hygg, að engin þjóð hefði ríkari hag af stofnun slíks sambandsríkis en einmitt við Íslendingar.  Til þess liggja margar ástæður.

Í því sambandi má nefna, að sú spilling í íslenskum stjórnmálum, sem nú blasir við allra augum á sér djúpar rætur í íslenskri þjóðarsál.  Hún hefur m.a. leitt til þess, að stjórnmálastarfsemi í norrænum skilningi þess orðs, hefur illa þrifist hér á landi; hér gildir persónupotið eitt, í allri sinni nekt.

Við réðum við heimastjórina á sínum tíma.  Um leið og Ísland varð fullvalda ríki 1918 tók að halla undan fæti.  Hernámið og það sem því fylgdi fór endanlega með íslenska ríkið fjandans til.  Lýðveldisstofnun 1944 var því eins og hver annar harmrænn gamanleikur. 

Fullkomnun skrípaleiksins náðist svo með framseljanlegum kvóta í fiskveiðum, sem á skömmum tíma breytti Íslandi í nokkur smáfurstadæmi, sem helst má líkja við Sturlungaöldina.

Norrænt sambandsríki gæti tryggt okkur sjálfstjórn, að svo miklu leyti, sem við ráðum við hana.  Hún gæti því fært okkur það innra sjálfstæði, sem við höfum löngu glatað og gert okkur um leið þátttakendur í vitrænu sambandsríki norrænna bræðraþjóða.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Emilsson

Pjetur, það er galli á gjöf Njarðar. Svíþjóð, Danmörk og Finnland eru ESB lönd . Norrænt sambandsríki yrði því bara smá hluti af Stórbandalagi Þýskalands. Og til hvers er þá unnið.

Björn Emilsson, 3.11.2010 kl. 02:59

2 identicon

Stórbandalag Þýskalands;)  Angela Merkel hefur því miður orðið lítið ágengt síðustu misseri í ESB.

Er ekki alveg eins hægt að ganga í ESB og taka þátt í framtíð Evrópu.

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 3.11.2010 kl. 10:38

3 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Með inngöngu í ESB kæmi samstarf norðurlanda líklega af sjálfu sér því Norðmenn myndu þá líka vilja vera með. ( segir Joly). Sambandsríki norðurlanda er ekki líkleg leið til framtíðar. Sérstaklega tel ég Finna lítið spennta fyrir slíku. Þó er aldrei að vita nema Eistrasaltslöndin, Eistland, Lettland og Litháen ásamt Finlandi teldu sig eiga eitthvað sameiginlegt. Endurreisn gamla verslunarveldis Hansakaupmannanna í formi hagsmunabandalags Norður Evrópuríkja er vel hugsanleg en ekki utan ESB.

Gísli Ingvarsson, 3.11.2010 kl. 20:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband