Skilum þýfinu frá Coventry

Það var heldur dapurlegt að horfa á þáttinn um steindu gluggana úr dómkirkjunni í Coventry, sem er að finna á Íslandi, í sjónvaprinu nú í kvöld.

Forsaga málsins er sú, að í upphafi síðari heimsstyrjaldar, voru gluggarnir teknir úr dómkirkjunni í Coventry, af ótta við loftárásir Þjóðverja.  Síðan hurfu þeir með dularfullum hætti og er ljóst, að þeim hefur verið stolið.  Íslendingur keypti svo þýfið af fornsala í London.

Sama dag og loftárisn á Coventry var gerð, þann 17. nóvember 1940, var Matthíasarkirkja á Akureyri vígð.  Síðar í stríðinu er svo einn glugginn frá Coventry settur upp þar fyrir norðan, sem gjöf frá Jakobi Frímanssyni kaupfélagsstjóra KEA.  Bæði honum og þeim sem keypti gluggann í Londan, má vitanlega hafa verið ljóst, að hér var um þýfi að ræða, enda vissu þeir hvaðan glugginn kom.   En málið var einfaldlega þagað í hel.

Í þættinum kom einnig fram, að fleiri glugga frá dómkirkjunni í Coventry er að finna á Íslandi.  Þannig eignaðist Áskirkja í Reykjavík nokkra þeirra úr dánarbúi og eru þeir í geymslu í kirkjunni, sýnilega lítt varðveittir, þar sem þeir virðast ekki vera í öryggiskössum.  Til að bæta svo gráu ofan á svart, kom í ljós í þættinum, að hluti steinds glugga frá Coventry, sem rekja má allt aftur til 15. aldar, er hafður til skrauts í útidyrum einbýlishúss í Reykjavík.

Íslendingar ættu að sjá sóma sinn í því, að skila öllum þessum gluggum.  Fyrir okkur hafa þeir ekkert menningargildi, en fyrir íbúa Coventry eru þeir ómetanlegir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þetta er mesta hneisa og það stakk mig þegar einn manna í hópnum sem var að skoða glugganna sagði við Bretanna að þeir ættu að senda formlega beiðni að þýfinu sé skilað. Maður sá reiði á mönnunum en Bretar kunna sig. Þeir myndu ekki þiggja þýfið aftur ef ég þekki rétt en auðvita eigum við að skila þeim og áttum að gera strax hvað þá gluggana í einbýlishúsinu hér í reykjavík en það var að sjá marga skrítna muni. 

Valdimar Samúelsson, 31.10.2010 kl. 22:44

2 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Kæri Pétur, það er vilji forsvarsmanna dómkirkjunnar í Coventry að glugginn þaðan verði til frambúðar í Akureyrarkirkju. Ég var einn þeirra sem tók á móti þeim þegar þeir heimsóttu okkur í fyrra og þeir gera sér grein fyrir því að glugginn var keyptur í góðri trú á sínum tíma. Dylgjurnar og tortryggnin í þessu máli eru íslenskar og ég skil ekki hvað vakir fyrir þér með því að sverta minningu sómamannsins Jakobs Frímannssonar eins og þú gerir með þessum skrifum.

Svavar Alfreð Jónsson, 31.10.2010 kl. 22:47

3 identicon

Bretar náðu,  með vægast sagt vafasömum aðferðum,  dýrgripum, bæði frá Grikklandi og Egyptalandi og neita því alfarið að skila þeim aftur.

Hvers vegna skildum við skila þeim þessum gluggum.

Þegar þeir hafa skilað sínu þýfi, þá getum við  íhugað  að skila okkar þýfi.

Gísli Ófeigsson (IP-tala skráð) 31.10.2010 kl. 23:18

4 Smámynd: Pjetur Hafstein Lárusson

Blessaður séra Svavar.

Ekki var það nú ætlun mín að vega að heiðri nokkurs manns með þessum skrifum mínum, hvorki Jakobs Frímannssonar né annarra.  En undarlegt má það heita, að menn skuli ekki hafa gert sér ljóst, að menningarverðmæti sem þessi, lenda ekki hjá fornsala með eðlilegum hætti, að nú ekki sé talað um á jafn alvarlegum tímum og í síðari heimsstyrjöldinni. 

Auðvitað gera Englendingar ekki kröfu í þessa glugga.  Hitt leyndi sér ekki í þættinum, að þeim þætti ekki lakara, að Íslendingar skiluðu þeim að sjálfsdáðum.  Slíkur hugsunarháttur er hluti þess, sem meðal enskra kallast sjentilmennska, en hún er sem kunnugt er, nokkið framandi hér á landi.

Pjetur Hafstein Lárusson, 31.10.2010 kl. 23:30

5 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Sæll, Pétur, ég skal nú ekki fjölyrða um menningarsögulegt gildi þessarar rúðu en það hefur aldrei verið neitt leyndarmál hvaðan hún er komin. Ég hitti forsvarsmenn dómkirkjunnar í fyrra og þeir voru ekki komnir til að biðja um gluggann aftur, þvert á móti kváðust þeir mjög ánægðir með að vita af henni í Akureyrarkirkju og vildu hafa hana þar til frambúðar til tákns um góð tengsl kirknanna sem þeir hafa mikinn hug á að efla og styrkja. Það hefur alltaf verið mín skoðun að glugganum eigi að skila til þess vilji og því kom ég á framfæri við vini mína frá Coventry. Undarleg finnst mér sú sjentilmennska að þjófkenna þá sem ekki eru lengur hér til að bera hönd fyrir höfuð sér. Góða nótt.

Svavar Alfreð Jónsson, 1.11.2010 kl. 00:02

6 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

"...sé til þess vilji", fyrirgefðu.

Svavar Alfreð Jónsson, 1.11.2010 kl. 00:03

7 Smámynd: Pjetur Hafstein Lárusson

Blessaður aftur.

Ég verð því miður að leiðrétta misskilning.  Ég er ekki að þjófkenna nokkurn Íslending, sem að þessu máli kemur, enda hafa þeir augljóslega ekki komið gluggunum frá Coventry til forngripasalans í London.  Ég er aðeins að benda á, að þeim hefði mátt vera ljóst, aðdragandi viðskipta þeirra og forngripasalans hlaut að vera nokkuð grunsamlegur.  Sofðu rótt.

Pjetur Hafstein Lárusson, 1.11.2010 kl. 00:17

8 identicon

Steindir gluggar - Coventry - Akureyrir???

Heimildamyndin "Saga af stríði og stolnum gersemum", e. Hjálmtý Heiðdal

Málið um steindu gluggana frá Coventry hef ég þekkt í um fimmtán ár. Sem leiðsögumaður hef ég komið með fjöldann allan af ferðamönnum um Akureyri og sagt m.a. frá steinda glugganum frá Coventry í Englandi. Einnig fleiri gluggum frá Coventry sem eru í Reykjavík. Hvernig þeir bárust hingað til landsins vegna stríðs og óhamingju í annarri heimstyrjöldinni í Englandi. Ég myndi gjarnan vilja fá svör frá sem flestum við neðangreindum spurningum um alla þá steindu glugga, sem voru dómkirkjunni í Coventry, sem eru til á Íslandi:

1. Heimildarmyndin er sannarlega unnin af Akureyringi sem er eðlilega litaður af sínum uppruna og staðhæfir of mikið um ágæti Akureyrar og ráðamenn þar. Hvernig yrði efnisumfjöllun ef Breti myndi vinna slíka heimildarmynd um sömu glugga? Hvernig myndi efnisumfjöllun vera ef einstaklingur sem ekki er alin upp á Akureyri og byggi ekki þar myndi gera heimildarmynd um sama efni?

2. Myndum við skila gluggunum ef þeir hefðu verið í danskri kirkju segjum í Kaupmannahöfn á stríðsárunum. Gluggarnir numdir á brott þaðan úr kirkju, settir í ólöglega sölu og seldir úr landi til Íslands. Settir síðan upp í Akureyrarkirkju af tilviljun. Síðan fundnir og engin bæði um þá?

3. Af hverju skiluðu Danir okkur handritunum? Af hverju skilum við ekki Bretum gluggum sínum fyrst Danir skiluðu handritunum? Hver er munurinn á þessum tveimur eignarréttarmálum?

4. Af hverju söng kór við gluggana í Akureyrarkirkju þegar gestirnir frá Coventry komu inn í kirkjuna? Var kórinn tákn um varnarskjöld um steindu gluggana sem eru stolnir eða var kórinn tákn um upphafningu á eignarhaldi Akureyringa á steindum gluggum sem eru lagalega í eigu Breta skv. því sem Sigurður Líndal Lagaprófessor nefndi? Eða var kórinn kór Guðs, tákn um guðsblessun eins og höfundur heimildarmyndarinnar vildi gefa í skyn?

5. Getur verið að heimildarmyndin sé unnin núna vegna þess að Bretar eiga í deilum við okkur vegna Icesave sem vissulega veikir vináttu þjóðanna?

6. Alþjóðleg lög um þjóðargersemar og eignarrétt á þeim eru ekki reifuð og rökrædd á nokkurn hátt í heimildarmyndinni. Unesco vinnur eftir slíkum lögum. Er unnið eftir alþjóðlegum lögum þegar metið er hvort skila eigi steindu gluggunum frá Coventry til Englands? Telur þú að Ísland mundi þurfa að leysa þetta mál eftir alþjóðlegum lögum til enda? Er eðlilegt að örfáum kirkjunnar mönnum sé farið vald til að merkja eignarrétt á þjóðargersemum með guðsblessun?

Þætti vænt um að fá skýr og rökstudd svör við spurningum mínum.

Með kærri kveðju til ykkar allra.

Sólveig Dagmar Þórisdóttir, MA. hagnýtur menningarmiðlari

Sólveig Dagmar Þórisdóttir (IP-tala skráð) 1.11.2010 kl. 01:24

9 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Sæl Sólveig!  Þú fullyrðir að myndin sé sannarlega unnin af Akureyringum. Ertu nú viss um það?

Gestirnir frá Coventry komu hingað í fyrra til að efla vinatengsl Akureyrarkirkju og dómkirkjunnar í Coventry. Það er þeirra ósk að glugginn úr dómkirkjunni verði í Akureyrarkirkju til frambúðar sem tákn um vináttu kirknanna og samvinnu. Þeim var fagnað mjög hérna fyrir norðan, m. a. með fallegum söngvum.

Með bestu kveðjum,

 Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur

Svavar Alfreð Jónsson, 1.11.2010 kl. 07:38

10 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Sæl öll sem hér látið ljós ykkar skína.

Fyrst: Pjetur - loftárásin var gerð 14. nóv. en Akureyrarkirkja var vígð 17. nóv. Þetta kemur skýrt fram í lokaorðum myndarinnar.

Sólveig: Myndin er ekki gerð af neinu sérstöku tilefni eða tengd einhverjum hræringum í þjóðmálum eða milliríkjamálum. Karl Smári, sögumaður myndarinnar, kom til mín með 3 hugmyndir að myndum. Allar tengdust þær Englandi og Íslandi. Þessi varð fyrir valinu sem fyrsta mynd vegna þess að ég taldi að hún væri aðgengilegust. Við fórum til Englands og tókum upp efni í allar 3 sögurnar og hver veit hvað úr þessu verður.

Það kemur skýrt fram í myndinni að kaupin hér heima voru gerð í góðri trú af Jakobi Frímannssyni og Óla Ísaks, þ.e. ekki kom til tals að gluggarnir væru komnir hingað með vafasömum hætti. Hinsvegar hefur þeim verið smyglað frá Englandi. Því eins og McGrory sagnfræðingur segir í myndinni þá hefðu menn lent í fangelsi ef upp hefði komist um menn með rúðurnar í fórum sín um í London. Og ekki hefði verið mögulegt að skrifa á tollpappírana „stained glass windows from Coventry Cathedral“. Menn hefðu verið stoppaðir.

Svo er ljóst, bæði af viðtölum við ýmsa í Coventry, og þá tvo sem hingað komu, að Coventrymenn eru sáttir við veru rúðanna hér. En þeir geta ekki gefið þá formlega þar sem þeir hafa ekkert umboð til þess.

Hjálmtýr V Heiðdal, 1.11.2010 kl. 08:56

11 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Viðbót:

Hugdettur Sólveigar um kórinn eru stórskemmtilegar. En það var tilviljun ein að hann var að æfa á sömu stundu og gestirnir frá Coventry mættu.

Svo má það fljóta með að ég er Reykvíkingur í báðar ættir - að mestu. Blandaður með austfirsku og vestfirsku blóði - en ekki dropi að norðan.

Hjálmtýr V Heiðdal, 1.11.2010 kl. 08:59

12 identicon

Þakka þér fyrir leiðréttinguna á villu minni varðandi árásardaginn Hjálmtýr.

Pjetur Hafstein Lárusson (IP-tala skráð) 1.11.2010 kl. 19:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband