Ísland er menningarlíki, ekki menningarsamfélag

Samkvæmt nýrri skýrslu frá OECD leggja Íslendingar hlutfallslega meira fé til menntunar en aðrar aðildarþjóðir OECD.  Þó eru kennaralaun hér aðeins 70% af meðaltali kennaralauna innan OECD-landanna. 

Óneitanlega vekur þetta spurningar um, í hvað peningarnir fara.  Er bruðlað í yfirstjórn, húsbyggingum eða einhverju öðru?

Hitt er ekki síður umhugsunarvert, að samkvæmt nýlegri skýrslu frá Evrópusambandinu, skilar fræðslukerfið í álfunni hvergi lakari árangri en á Íslandi, að Tyrklandi einu undanskildu, en það ágæta land getur tæpast talist til Evrópuríkja.  Þetta kemur fram í því, að helmingur grunnskólanema hættir námi að loknum 10. bekk.

Nú er það svo, að grunnur að menntun barna er vitanlega lagður á heimili þeirra.  Engu að síður hlýtur einhvers staðar að vera pottur brotinn í kennaramenntun hér á landi.

Ég þekki útlendinga, sem sest hafa að á Íslandi og eiga hér börn í grunnskólum.  Þeir kvarta allir undan lítilli kennslu í grunnskólum hér.  Einn þeirra hefur starfað hér við kennslu.  Hann sagði við mig, ekki alls fyrir löngu: „Í mínu heimalandi er ætlast til þess, að skólinn sé erfiður; hér á hann að vera skemmtilegur".

Sjálfur hef ég gripið í grunnskólakennslu.  Ég fullyrði, að fyrsti kennslumánuður hvers vetrar fari í að mestu leyti í vaskinn.  Desembermánuður fer meira og minna í föndur og lokamánuð vetrarins er tæpast um kennslu að ræða.  Blandað bekkjarkerfi, án tillits til námsgetu nemenda, sér svo til þess, að afgangur vetrarins er harla lítils virði, hvað nám varðar.

Að loknu skyldunámi hættir svo helmingur unglinga námi.  Hinn helmingurinn fer í háskólanám, sem eðli málsins samkvæmt er ekki upp á marga fiska í fjölmörgum greinum.  Svo eru menn standandi hissa á því, að Íslandingar taki ekki mark á s.k. „sérfræðingum".

Er ekki orðið tímabært að við vindum ofan af þessari vitleysu og byrjum á því, að gera okkur ljóst, að Ísland er ekki menningarsamfélag heldur menningarlíki?  Það er víðar munur á smjöri og smjörlíki en á milli brauðsneiðar og áleggs!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband