21.10.2010 | 23:13
Varðandi stjórnarskrárbreytingar
Nú í vikunni birtist í sjónvarpi viðtal við formann félags um nýja stjórnarskrá. Allt gott um það að segja, nema hvað maðurinn talaði um stjórnarskrána, sem útlenda stjórnarskrá. Þetta er undarlega þröngur söguskilningur manns, sem hefur breytingar á stjórnarskránni að sérstöku áhugamáli og er auk þess í forystu félags þar um.
Stjórnarskráin er að grunninum til frá 1874. Vissulega var hún veitt af Kristjáni konungi IX og því dönsk, fljótt á litið. En sé betur að gætt, er hér um að ræða dæmigerða evrópska stjórnarskrá frá miðri 19. öld og næstu áratugum þar á eftir. Allar þessar stjórnarskrár eiga það sameiginlegt, að vera undir sterkum áhrifum frá hugmyndum enska heimspekingsins Johns Lock á 17. öld, stjórnarskrá Bandaríkjanna sem samin var 1789 og hugmyndum frönsku byltingarinnar sem braust út sama ár. Þjóðerni höfunda þeirra, skiptir því harla litlu máli.
Vissulega þarf að gera breytingar á núverandi stjórnarskrá. Þar ber einkum að hafa eftirfarnadi fimm atriði í huga:
1. Stjórnarskráin þarf að hefjast á mannréttindakafla líkt og þýska stjórnarskráin.
2. Binda þarf hlutverk forseta Íslands, t.d. við rétt til þingrofs og aðkomu að ríkisstjórnarmyndun.
3. Setja þarf í stjórnarskrá ákvæði um að viss hluti kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðis. Fjórðungur eða fimmtungur kæmi þar til greina.
4. Setja þarf í stjórnarskrá ákvæði um ráðherraábyrgð.
5. Skipan hæstaréttardómara og jafnvel hérðasdómara, verður a.m.k. að hluta að aðskiljast frá framkvæmdavaldinu.
Öll þessi atriði og önnur, er upp kunna að koma í þessu sambandi, eru of mikilvæg, til að verjanlegt sé, að ræða þau innan þröngra marka þjóðrembu, eins og fram kom í áðurnefndu sjónvarpsviðtali.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Viðbót við lið 4. ...og kveða á um stjórnlagadómstól.
Axel Þór Kolbeinsson, 22.10.2010 kl. 08:57
Góð grein hjá þér. Þú gætir kannski sett inn eitthvað af hugmyndum þínum um stjórnarskrárbreytingar í hugmyndabankann á www.austurvollur.is?
Ástþór Magnússon Wium, 22.10.2010 kl. 20:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.