18.10.2010 | 18:54
Húsaleigubætur lækkaðar
Nú hefur ráðherraliðið, sem dag hvern höktir í erindisleysu milli Arnarhóls og Austurvallar ákveðið, að minnka útgjöld til húsaleigubóta um 20% eða sem svarar 600.000.000 króna. Þetta er sami mannskapurinn og þóttist vera að mynda norræna velferðarstjórn á síðasta ári. Á sama tíma er ausið milljörðum í tónbjásturshöll niður við höfn og talið til menningarmála.
Hvenær ætlar þessi mannskapur að skilja það, að listir eru aðeins einn hluti menningar, ekki menningin sjálf? Menningin birtist okkur m.a. í því, hvernig farið er með þá, sem standa höllum fæti. Það er plebbismi" á hæsta stigi, að sóa milljörðum í gæluverkefni fárra skrauthana á priki, eins og tónbjásturshöllin er dæmi um, á sama tíma og draga á stórlega úr húsaleigubótum, fyrir nú utan allar aðrar árásir, sem nú eru gerðar á velferð almennings.
Það er fyrst og fremst láglaunafólk, sem býr í leiguhúsnæði. Húsaleigubætur eru því jöfnuður í anda norræns velferðarkerfis. Og nú, þegar stöðugt fleiri missa eignarhald á íbúðarhúsnæði, hyggst Íbúðalánasjóður leigja út húsnæði, sem hann hefur tekið til sín vegna skulda. Er þá ekki þörf fyrir auknar húsaleigubætur? Svarið við þeirri spurningu vefst tæpast fyrir þeim, sem aðhyllast norrænt velferðarkerfi. En spurningin er sýnilega of flókin fyrir ráðherraliðið. Mikil er þess skömm!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Á sama tíma er líka ausið fé í fánýtt stjórnlagaþing, tilgangslausar aðildarviðræður við EBS og sjálfsagt sitthvað fleira. Það er ekki á allra færi að skilja hvað liggur að baki forgangsröðuninni.
Sigurður Hreiðar, 18.10.2010 kl. 19:54
Forgangsröðun er eitthvað sem stjórnin þekkir ekki, það sem verra er að hún hefur ekki vit á efnahagsmálum heldur.
Það er unnið hörðum höndum að inngöngu í ESB, eins og það leysi allann vandann! Á meðan fólkið í landinu sveltir og hefur ekki efni á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu.
Vandinn verður einungis leystur með aukinni verðmætasköpum, nokkuð sem stjórnin þekkir ekki heldur! Ráðherra hefur látið hafa eftir sér að hægt sé að fjölga enn frekar störfum hjá ríkinu. Hver er verðmætasköpunin vegna þeirra starfa?!!
Skattastefna sjórnvalda er með eindæmum og alls ekki í anda norræns velferðarkerfis. Skjaldborgin fór um banka og lánastofnanir.
Burt með þessa óstjórn strax!!
Gunnar Heiðarsson, 19.10.2010 kl. 08:16
Kostar ekki nýja sendiráðshúsið í London um 840.000.000,- það væri kannski hægt að leigja góða silkipúða íbúð og skrifstofuhúsnæði í nokkur ár fyrir mismuninn á 840. mill og 600. mill og láta húsaleigubætur almennings í friði.
Það kemur íslenskri þjóð örugglega betur er höll undir pótintáta í London. Getur Össur hin þreytti ekki bara sofið á svítunni sinni á de lux hótelinu sínu eða kannski fær hann að gista hjá Sigga Einars eða Jóni Ásgeiri vinum sínum.
Sveinn (IP-tala skráð) 19.10.2010 kl. 10:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.