7.10.2010 | 23:38
Steingrímur á leið úr stjórnmálum
Það er ekkert nýtt, að ráðherrar hygli sínum heimaslóðum. Því telst það vart til tíðinda, að Skagamaðurinn Guðbjartur Hannesson horfi mildum augum til sjúkrahússins á Akranesi við gerð fjárlaga, en hvessi augnaráðið, þegar litið er fjarri heimaslóð. En heldur þykir mér hann skjóta yfir markið, þegar hann ætlar Þingeyingum, einum hundraðshluta þjóðarinnar, að taka á sig 14% af niðurskurði landsmanna til heilbrigðismála. Það er auk þess kaldhæðni örlaganna, að þarna er einmitt um að ræða heimaslóðir fjármálaráðherra, sem auðvitað ber ábyrgð á fjárlagafrumvarpinu, hvað sem fagráðherrar" segja.
Það er ekki aðeins Þingeyingum, sem er brugðið, við landsbyggðamenn allir, teljum okkur greina nokkurn hroka við sunnanverðan Faxaflóa. Hvernig á t.d. að útskýra það fyrir Vestmannaeyingum, að konur skuli ekki lengur geta fætt börn sín þar, bjáti eitthvað á, eins og samgöngum við Eyjar er nú háttað? Og hvernig hyggjast menn afsaka það, að sjúkrastofnanir á Seyðisfirði og Egilsstöðum leggist af?
En fátt er svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott. Fjárlagafrumvarpið er greinilegur vottur þess, að Steingrímur Sigfússon hyggur ekki á öllu lengri dvöl í Alþingishúsinu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.