Utanþingsstjórn þegar í stað!

Ég er hræddur.  Ég veit, að stjórnmálaflokkarnir og viðhengi þeirra munu aldrei geta leitt þjóðina út úr þeim ógöngum, sem hún hefur ratað í.  Ástæðan er einföld; stjórnmálaflokkarnir vörðuðu leiðina til glötunar og þeir rata ekki til baka.  Og það sem verra er; þeir vita ekki einu sinni, að þeir arka með þjóðina eftir glötunarveginum. 

Sumir stjórnmálamenn trú því, að kreppan sé ekki til, meðan aðrir þeirra halda, að hún sé aðeins óþægileg tilviljun, sem muni hverfa með vorinu, rétt eins og snjórinn úr fjallshlíðunum.

En þetta er ekki svona.  Kreppan er miklu dýpri og varanlegri en lýðum er ljóst, að nú ekki sé talað um stjórnmálamönnum.    Efnahagsástandið er aðeins yfirborðsmynd hennar; undir kraumar hin siðferðislega kreppa.

Það má vel vera, að efnahagsástandið eigi eftir að komast í samt lag á næstu misserum.  En traustið á stjórnmálamönnum og flokkum þeirra er endanlega brostið.  Græðgi og meðfylgjandi yfirborðsmennska „frjálshyggjutímans" snéri Darwinskenningunni við hjá stórum hluta fólks; í stað þess að apinn þróaðist til manns, varð maðurinn að apa.  „Margur verður af aurum api".

Þegar a.m.k. 8.000 manns mótmæla fyrir utan Alþingishúsið, eiga þeir, sem þar starfa innan dyra að skilja, þegar skellur í tönnum.  Og þetta fólk var ekki aðeins að mótmæla ríkisstjórninni.  Nei, það var að mótmæla ómenningu stjórnmálanna í landinu, eins og hún leggur sig!

Nú virðast ráðleysingjarnir í stjórnmálaflokkunum vera að undirbúa „þjóðstjórn".  En auðvitað geta þeir ekki myndað þjóðstjórn, einfaldlega vegna þess, að þeir tilheyra ekki þjóðinni.  Þjóðin gengur ekki inn í bankana og fær afskriftir á skuldum sínum án frekari eftirmála.  Þjóðin gengur ekki inn í utanríkisráðuneytið og fær jeppa á ríkiskostnað, til að ferðast um með útlenda vini.  Þjóðin sest ekki í ritstjórastól dagblaðs til að náða sjálfa sig af eigin mistökum og misgjörðum og ata aðra auri.  Þjóðin fremur ekki afbrot og leggur það í vald vina og vandamanna, hvort hún eigi að taka út regsingu eður ei.  En allt þetta gera stjórnmálamenn og fylgifiskar þeirra!

Þjóðin er einfaldlega á köldum klaka; efnahagslega, stjórnmálalega, menningarlega og siðferðilega.  Hún ein getur komið sér úr þeirri stöðu og það mun taka kynslóðir! 

Við eigum langa göngu fyrir höndum til fegurra mannlífs á landi hér.  En sú ganga mun ekki einu sinni hefjast, fyrr en hér verður mynduð utanþingsstjórn, sem þjóðin virðir og stjórnmálaflokkarnir lúta, þar til ný pólitísk öfl hafa leyst þá af hólmi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú ert sem sagt einn af þeim sem hefur misst trúna á lýðræðið og þingræðiskerfi Íslendinga og vilt stjórn sem ekki þarf að bera ábyrgð gagnvart almenningi. Þeirr stjórn verður reyndar ekki komið á nema með valdaráni, hér vantar hins vegar ofurstana og lautinantana til að koma þessari draumastjórn í kring. Eða ætlast þú til að stjórnmálaflokkarnir beygi sig í duftið og bíði þess að nýir flokkar verði myndaðir af reynslulausu og skoðanalausu fólki? Dream-on.

Ég aftur á móti held að þingræðiskerfið sem hér hefur verið síðan 1904 og alþingi sem hefur starfað á Íslandi síðan 1845 sé nákvæmlega það stjórnskipulag sem hentar okkur best. Það er vont, en það er hins vegar betra en nokkurt annað.

Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 5.10.2010 kl. 19:37

2 Smámynd: Gunnlaugur I.

Mikið sammála Ómari !

Gunnlaugur I., 5.10.2010 kl. 19:43

3 identicon

Utanþingsstjórn

Draumur

en draumar geta ræst

Þjóðstjórn væri bara flott fram að næstu kostningum

kveðja

Æsir (IP-tala skráð) 5.10.2010 kl. 21:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband