Aumingja Samfylkingin

Ekki hækkaði nú risið á Alþingi í dag.  Og Samfylkingin, ja það er nú söfnuður í sérflokki og honum miður góðum.  Að fjórir þingmenn flokksins, skuli hafa geð í sér, til að kjósa með málshöfðun gegn Geir Haarde fyrrum forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, en greiða um leið atkvæði á móti málshöfðun gegn flokkssystur sinni, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fyrrum utanríkisráðherra og formanni Samfylkingarinnar, er hrein lítilmennska.

Ástæða er til að halda nöfnum þessa fólks til haga, en þau eru; Helgi Hjörvar, Ólína Þorvarðardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Skúli Helgason.

Auðvitað ber Geir Haarde vissa ábyrgð á fumkenndum viðbrögðum við hruninu 2008.  Og það er aumkunarvert, að hlusta á hann halda því fram, að það hafi komið honum og öllum öðrum í opna skjöldu.  Viðvaranir höfðu borist, en á þær var ekki hlustað.  En það var ekki aðeins Geir Haarde, sem skellti skollaeyrum; það gerði Ingibjörg Sólrún ekki síður.

Ég held ekki, að þetta fólk hafi viljað vinna þjóð sinni mein.  Og ég ætla ekki, að fullyrða, að það hafi sýnt af sér vítaverða vanrækslu í starfi, í skilningi laga.  Hitt fullyrði ég, að sé til lagaleg ábyrgð á hruninu og afleiðingum þess, þá eiga allir gömlu stjórnmálaflokkarnir það nokkra sök, einnig Vinstri grænir.  Það vill nefnilega svo til, að fulltrúar þeirra í stjórnum lífeyrissjóða tóku fullan þátt í dansinum í kringum gullkálfinn.

Hinu skal og haldið til haga varðandi Geir Haarde og meinta sök hans, að hann tók við þeim arfi frá Davíð Oddssyni, sem ekki gat endað öðru vísi en með ósköpum.  Og því má þjóðin ekki gleyma, að stór hluti hennar, ef til vill meirihlutinn tók þátt í darraðardansinum.  Hefði verið hægt, að teyma Íslendinga jafn langt á asnaeyrunum og raun ber vitni, nema vegna þess, hversu ótrúlega löng þau eru?

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Emilsson

Vel að orði komist Pjetur. Hverju orði sannara.

Björn Emilsson, 29.9.2010 kl. 02:47

2 Smámynd: Tómas H Sveinsson

Af hverju sleppur klappstýra auðmannanna? Er ÓRG saklaus? Hann sem prísaði og lofaði þessa gaura sem komu þjóðinni á vonarvöl og endaði svo á að sæma þá heiðursmerkjum fyrir framtakið. Ekki hlustaði hann á viðvaranir frekar en Geir og Ingibjörg. Með þessari atkvæðagreiðslu er hluti samfylkingarinnar búinn að skrifa undi eigin brottvísun af Alþingi.

Tómas H Sveinsson, 29.9.2010 kl. 07:40

3 identicon

''Eg er ekki sammála. 'Eg tel, að verið sé að þyrla upp moldviðri,til að  almenningur sjái ekki við  þeim, sem eru í raun sekir. Tíma og peningaeyðsla.

Sigríður Lárusdóttir (IP-tala skráð) 29.9.2010 kl. 19:00

4 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Um þessa nýjustu uppákomu í stjórnmálum má endalaust deila. Hins vegar er aðalatriðið að „kallinn í brúnni“ á þjóðarskútunni verður ákærður fyrir brot í starfi að sýna kæruleysi í aðdraganda hrunsins. Verknaðarlýsingin kemur fram í Hrunskýrslunni.

Þrátt fyrir fjölda vísbendinga var ekkert gert. Bæði Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn voru í Þyrnirósarsvefni að ógleymdum Sjálfstæðisflokknum eins og hann leggur sig. Hefur slíkur svefnhöfgi líklega sjaldan orðið jafnörlagaríkur og að þessu sinni í gjörvallri Íslandssögunni.

Auðvitað hefði verið eðlilegt að Samfylkingin hefði séð sóma sinn í að sitja fremur hjá en greiða atkvæði gegn tillögunum.

En óskandi er að refsigleðin verði ekki mikil. Fjársekt til vara fangelsi ásamt svipting réttinda einkum á sviði lífeyrisréttinda umfram aðra landsmenn væri mjög eðlileg og sanngjörn niðurstaða.

Í hruninu töpuðu tugir þúsunda Íslendinga ævisparnaði sínum í formi hlutabréfa. Lífeyrissjóðir líklega ekki minna. Allir landsmenn hafa tapað meiru á einn og annan hátt, sumir orðið meira að segja gjaldþrota.

Ef nokkur ástæða er til að ákæra fyrir léttúð og kæruleysi þá er það í máli Geirs Haarde sem státar sig af einhverjum prófgráðum í hagfræði við einhvern fínan háskóla í Bandaríkjunum.

Nú hefði Birni heitnum á Löngumýri verið skemmt. Ætli hann hlægi sig ekki máttlausan á Astralplaninu með Þórbergi Þórðarsyni yfir fláræði hagfræðinga íhaldsins?

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 30.9.2010 kl. 14:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband