Misbeiting stjórnmálaflokka á embættisveitingum og öðrum mannaráðningum

Í spjalli mínu í gær varpaði ég fram þeirri spurningu, hvort stjórnmálaflokkarnir væri ekki „elstu, þróuðustu og best skipulögðu glæpasamtök landsins".  Tilefnið er sú hugmynd dómsmálaráðherra, að veita lögreglu heimild til að rannsaka feril fólks, án þess að nokkur grunur hafi á það fallið og fela stjórnmálaflokkunum eftirlit með slíkri njósnastarfsemi í gegnum Alþingi. 

Það er ekki ætlun mín, að svara þessari spurningu.  Hins vegar ætla ég að varpa fram nokkrum atriðum, sem fólk getur velt fyrir sér í þessu sambandi.  Er þá eðlilegt, að byrja á embættisveitingum og öðrum mannaráðningum, sem stjórnmálaflokkar stýra í gegnum ríkisvaldið og vald sveitafélaga.

Eðlilegur tilgangur slíkra mannaráðninga hlýtur að vera sá, að efla hag almennings, með beitingu þess stjórnvalds, sem í hlut á.  Er sú raunin?  Þeirri spurningu treysti ég mér til að svara neitandi.

Mér skilst að Alþýðuflokkurinn, helsti forveri Samfylkingarinnar, hafi  beinlínis haft það í lögum sínum, að veita bæri flokksmönnum þær opinberu stöður, sem flokkurinn hefði yfirráð yfir.  Hjá öðrum flokkum hefur þetta, mér vitanlega ekki verið fest á blað, en sömu stefnu fylgt út í æsar.  Pukurslaust hafa flokkarnir tekið flokksskírteini fram yfir hæfileika, þegar um opinberar mannaráðningar hefur verið að ræða.  Þetta á við um þá alla.  Svo rammt hefur að þessu kveðið, að það vakti  furðu manna, á árum vinstri stjórnarinnar 1971 til 1974, að Magnús Torfi Ólafsson menntamálaráðherra skyldi yfirleitt ekki fylgja þessari stefnu.  Hann tók sem sagt hag ríkisins og þar með almennings, fram yfir hagsmuni flokksins.

Mín vegna mega menn deila um það, hvort augljós misbeiting stjórnmálaflokka á veitingarvaldi embætta og annarra starfa flokkist undir glæpastarfsemi.  Hinu verður ekki neitað, að þetta háttarleg hefur mjög dregið úr tiltrú almennings á flokkunum og þar með þeim stofnunum, sem þeir stýra, þ.á.m. Alþingi og ríkisstjórn.  Svo langt hefur þetta vantraust gegnið, að í valdatíð Davíðs Oddssonar,varð meira að segja Hæstiréttur að gjalda þessa almenna vantrausts.  Og það sem verra er; þetta hefur aukið vald þeirra, sem stýra stjórnmálaflokkunum hverju sinni, á kostnað almannahagsmuna.

Skipulögð glæpastarfsemi?  Svari hver fyrir sig.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dingli

Pétur, það eru allmörg ár síðan ég á vefsíðu einni, viðraði þá skoðun mína á stjórnmálaflokkunum fjórum, að starfsemi þeirra líktist meir glæpafélögum sem skiptu markaðnum á milli sín eftir fjölda fylgismanna, en þjóðkjörnum þingmönnum sem höfðu lagt það við drengskap sinn að gæta hagsmuna þjóðarinnar í hvívetna. Nefndi þetta líka hér á einhverri síðu.

Sennilega gæti ég setið í alla nótt við að tína upp skítinn sem R-listinn skildi eftir sig í borginni. Það hvarflaði ekki að mér á þeim tíma, að áratuga gamalt spillingar kerfi íhaldsins í borginni, yrði toppað innan árs.

Dingli, 22.8.2010 kl. 21:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband