21.8.2010 | 10:47
Dómsmálaráðherra á villigötum
Sú hugmynd dómsmálaráðherra, að heimila lögreglu að rannsaka gjörðir fólks, sem ekki er grunað um neitt misjafnt, eru þess eðlis, að ekki verður þagað þar um. Að eigin sögn hefur ráðherrann sjálfur verið nokkuð efins í þessum efnum. En tilkoma skipulagðrar glæpastarfsemi í landinu virðist hafa breytt skoðun hans. Takið skal fram, að samkvæmt hugmyndum ráðherrans á að vera eftirlit með rannsókn lögreglunnar á saklausu fólki´. Það eftirlit á hugsanlega að vera í höndum Alþingis.
Nú skulum við kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Þegar talað er um eftirlit Alþingis", er í raun átt við eftirlit stjórnmálaflokkanna, það eru nú einu sinni þeirra fulltrúar, sem á þingi sitja. Og hver treystir þeim? Jú, samkvæmt skoðanakönnunum treysta 13% þjóðarinnar Alþingi og þar af leiðandi þeim flokkum, sem þar eiga fulltrúa.
Af hverju skyldi þetta vantraust almennings á stjórnmálaflokkunum og Alþingi þeirra stafa? Hafi einhverjum dulist það fyrir árið 2008, þá er það nú öllum ljóst, að stjórnmálaflokkarnir gæta ekki hagsmuna almennings, heldur sjálfra sín og sérhagsmunahópa, sem stjórna þeim leynt og ljóst.
Hvað gerðu stjórnmálaflokkarnir, þegar sannleikurinn tók að þvælast fyrir frjálshyggjunni? Þeir lokuðu Þjóðhagsstofnun og drógu tennurnar úr Fjármálaeftirlitinu. Allir? Nei, auðvitað aðeins þeir, sem sátu þá við völd, Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn. Síðar gekk Samfylkingin til liðs við Sjálfstæðismenn og hélt darraðadansinum áfram.
Og hvað er að gerast nú? Ráðherrar Samfylkingarinnar eru að fylla ráðuneyti sín flóttamönnum úr hrundu bankakerfi frjálshyggjunnar og forysta Vinstri grænna andmælir því ekki einu orði. Til þess þykir henni of vænt um ráðherrastólana.
Þegar allt þetta er lagt saman við forsögu flokkanna og forvera þeirra, sögu endalauss undirlæguháttar kaldastríðsáranna við erlend stórveldi í austri og vestri, þá er nokkuð ljóst, að menn treysta stjórnmálaflokkunum hvorki til eftirlits með einu né neinu, allra síst persónulegum upplýsingum um fólk, sem ekkert hefur til saka unnið.
Vissulega er það rétt hjá dómsmálaráðherra, að erlend glæpasamtök hafa skotið rótum á Íslandi. Spurningin er hins vegar sú, hvort stjórnmálaflokkarnir séu ekki elstu, þróuðustu og best skipulögðu glæpasamtök landsins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.