Fjölmiðlar og ábyrgð

Meðan ég var í Kaupmannahöfn um daginn, fjölluðu fjölmiðlar ýtarlega um hneyksli innan félagsþjónustu eins af hverfum borgarinnar.  Í ljós hafði komið, að starfsfólk, sem átti að liðsinna gömlu fólki, gerði það með hangandi hendi.  Þannig átti hvert gamalmenni t.d. rétt á tveggja klukkustunda þjónustu á dag, en fékk allt niður í fimm mínútna innlit.

Hvernig tóku danskir fjölmiðlar á þessu máli?  Þeir andskotuðust í viðkomandi deild félagsstofnunar, þar til bæði þeir undirmenn, sem þarna áttu hlut að máli, sem og yfirmenn þeirra voru reknir.  Undirmennirnir voru látnir fjúka fyrir vinnusvik en yfirmennirnir fyrir eftirlitsleysi.

Auðvitað voru dönsku fjölmiðlarnir ekki að ana út í neina vitleysu. Þeir könnuðu málið og létu ekki til skarar skríða, fyrr en allt var á hreinu.  Hugsunin hjá þeim er þessi:  „Félagsleg þjónusta við gamla fólkið er hluti almannaheilla.  Þess vegna skal almenningur upplýstur um það, sem miður fer.

Fjármálaeftirlitið hér heima er hluti almannaheilla.  Því ber að hafa eftirlit með fjármálastofnunum og tryggja þannig, að innistæðum almennings sé ekki stefnt í voða.  Reynslan sýnir, að ekki veitir af.  

Nú hefur komið í ljós, að stjórn Fjármálaeftirlitsins hefur í laumi fyrirskipað rannsókn á meintu fjármálamisferli forstjóra eftirlitsins, meðan hann starfaði hjá Kaupþingi.  Eins og eðlilegt er, fóru fjölmiðlar fram á viðtal við formann stjórnar Fjármálaeftirlitsins, þegar þeir fréttu af þessu.  Það viðtal fékkst ekki.  Hvers vegna?

Svarið er einfallt; formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins gerir sér ekki grein fyrir því, hverjir húsbændur hans eru.  Hann skilur ekki, að hann er í þjónustu almennings.  Þess vegna á hann að víkja úr starfi.  Allt annað er ógnun, ekki aðeins við hagsmuni innistæðueigenda í bönkum og öðrum fjármálastofnun, heldur beinlínis við lýðræðið í landinu.  Þetta vefst ekki fyrir frændum okkar Dönum.  En því miður virðist jafn einfalt mál ofvaxið skilningi þröngrar og þröngsýnnar valdaklíku þeirrar guðs voluðu þjóðar, er byggir þetta land.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband