Hefur menntun dregist saman?

Lýðræðið er ekki gallalaust, en þó skársta stjórnkerfið, sem völ er á.  Þó er það fullt af þversögnum.  Ef til vill er það mesta þversögn lýðræðisins, að um leið og það heimilar fólki, að hafa þá skoðun, sem það vill, innan vissra marka þó, byggir það á ákveðnum grundvallaratriðum, sem ekki má víkja frá.

Mannréttindi eru eitt þessara grundvallaratriða lýðræðis og það mikilvægasta.  Meirihlutinn, hversu stór, sem hann er, getur ekki vikið út frá mannréttindum; þá er einfaldlega úti um lýðræðið.  Þetta fengu Þjóðverjar illilega að reyna á tímum nasismans.  Og máttu fleiri gjalda fyrir þann hrunadans.

Menntun er annað grundvallaratriði lýðræðis.  Lýðræði er í raun dreifð aðild að ákvarðanatöku.  Og það krefst þekkingar, að taka ákvörðun.  Þess vegna getur ekki verið um lýðræði að ræða, nema almenningur hafi greiðan aðgang að upplýsingum og sækist eftir þeim, taki m.ö.o. upplýsta afstöðu til mála.

Öllum kynslóðum hættir til að telja sig menntaðri en þær kynslóðir, sem á undan gengu.  Hversu oft höfum við ekki heyrt því fleygt, að unga kynslóðin nú, sé sú menntaðasta í sögu þjóðarinnar?

Nýleg skýrsla frá Evrópusambandinu, sýnir, að Íslendingar eru menntunarsnauðasta þjóð Evrópu, að Tyrkjum undanskildum, en raunar er vafamál, hvort telja beri þá Evrópuþjóð.  Í báðum þessum löndum fer aðeins um heldmingur unglinga í framhaldsnám.  Á sama tíma nær þetta hlutfall víða yfir 70% og sumstaðar yfir 80%.

Ekki má gleyma því, að menntun er víðfemt hugtak, sem menn greinir á um, hvaða merkingu hafi.  Áður var talað um lærða iðnaðarmenn og menntaða háskólamenn.  Í þessu fólst, að menn lærðu iðn, en menntuðu sig til akademískra greina.  þessi aðgreiging hefur að ýmsu leyti glatað merkingu sinni, enda er nú svo komið, að háskólar kenna ekki aðeins akademískar greinar, heldur einnig greinar, sem í eðli sínu eru mitt á milli þess, að teljast iðngreinar og háskólagreinar.  Súmar þessara greina voru áður kenndar í sérskólum, aðrar ekki.

Í mínum huga, getur ekki verið um neina menntun að ræða, nema að uppfylltum vissum grundvallaratriðum.  Og þá má einu gilda, hvort menn eru langskólagengnir eður ei. 

Tjáningin er grundvöllur allrar visku og þar með menntunar.  Sá sem hvorki getur tjáð sig, né skilið tjáningu annarra svo vel sé, er ekki menntaður, sama hvaða prófgráðu hann hampar.  Þess vegna er móðurmálskennsla og kennsla í nokkrum erlendum tungumálum grundvöllur menntunar og um leið lýðræðis. 

Sagan er annað grundvallaratriði mennta og lýðræðis.  Án þekkingar á sögu lands og þjóðar, sem og söguþekkingar í víðara samhengi, eru menn sem fiskar á þurru landi og tæpast færir til þátttöku í lýðræðislegu samfélagi.  Þeir verða óhjákvæmilega leiksoppar óprúttinna áróðursmanna, sem ævinlega ógna lýðræðinu.

Þannig mætti lengi halda áfram.  En eitt er ljóst; skólakerfið á Íslandi hefur, þrátt fyrir tiltölulega litla þátttöku, þanist út á undanförnum árum.  En hvað um menntun, sem grundvöll lýðræðislegs þjóðfélags og andlegs þroska einstaklinga?  Hefur hún ef til vill dregist saman?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband