8.6.2010 | 23:40
Félagsmálaráðherra á villigötum
Árum saman hafa auðhyggjumenn hamast við, að telja þjóðinni trú um, að allur opinber rekstur sé af hinu illa. Þeir hafa úthrópað opinbera starfsmenn, sem hin aumustu sníkjudýr á alþýðunni, eins þótt þeir sjálfir hafi aldrei annars staðar unnið en hjá því opinbera. Nema ef vera skyldi að þeir hafi verið sendlar í bernsku eða borið út Vísi eða Moggann.
Nú hefur þessum hugmyndafræðilegu öreigum borist liðsauki úr óvæntri átt. Félagsmálaráðherra leggur til, að laun opinberra starfsmanna verði fryst í þrjú ár, án tillits til tekna þeirra, starfsaldurs og vinnuálags.
Veit ég vel, að ríkið á í kröggum. En vel mætti félagsmálaráðherra minnast þess, hvar rætur flokks hans liggja; þrátt fyrir allt. Samfylkingin á rætur að rekja til verkalýðshreyfingarinnar og baráttu hennar fyrir bættum kjörum og auknum mannréttindum. Samningsrétturinn er hluti þeirra mannréttinda.
Öllum er ljóst, að opinberir starfsmenn, jafnt og flestir aðrir landsmenn, eru reiðubúnir til að taka á sig sinn skerf af kreppunni, í þeirri von, að henni ljúki sem fyrst. En um það þarf að semja. Og frysting launa allra opinberra starfsmanna, er einfaldlega út í hött.
Ráðherrar eru með hátt í milljón krónur í mánaðarlaun, meðan gangastúlkur á sjúkrahúsum eru með undir 200.000 króna mánaðarlaun. Samt er jafnt dýrt fyrir báða þessa hópa, að fæða sig og klæða. Nauðsynlegur matur, til að halda í sér lífinu kostar það sama, hvort heldur það er gangastúlka á Landspítalanum, eða ráðherra, sem meltir hann. Og ráðherra þarf ekki að hysja upp um sig fínni buxur en hver annar, til að ganga snyrtilega til fara. Væri því ekki snjallræði, að félagsráðherra sýndi fagurt fordæmi og lækkaði sín eigin laun, áður en hann fer að ráðast á samningsrétt launafólks, sem sumt hvert hefur ekki úr miklu að moða?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.