16.5.2010 | 13:42
Óhugnanleg frétt í Ríkisútvarpinu
Það var svolítið undarlegt að hlusta á hádegisfréttirnar í Ríkisútvarpinu áðan. Þar var sagt frá því, að 90% árangur væri af fóstureyðingum með lyfjum", eins og það var orðað.
Nú dylst það tæpast nokkrum manni, sem hugsar þetta mál til botns, að líf kviknar við getnað. Fóstur er því ekki dauður hlutur, heldur lifandi mannvera, að vísu á frumstigi, en mannvera þó. Fóstureyðing er því ekki sambærileg við það, að henda tómri mjólkurfernu. Fóstureyðing er líflátsaðgerð, sama hverjar forsendur hennar eru.
Nú dettur mér ekki í hug, að fréttamenn Ríkisútvarpsins séu villimenn. En það, hvernig þessi frétt er orðuð, er villimannlegt. Þetta er afleiðing tíðaranda, sem telur það til mannréttinda, að fórna mannlegu lífi, jafnvel vegna félagslegra ástæðna".
Vissulega eru þess mörg dæmi, að börn séu getin, án þess að séð verði, að foreldrarnir verði þess umkomnir, að ala önn fyrir þeim. En þá ber að rétta þeim hjálparhönd við uppeldið, sé þess nokkur kostur. Sé svo ekki, má benda á, að fjöldi fólks getur ekki átt börn en þráir að eignast kjörbörn.
Það er sama hvernig litið er á þessi mál. Þótt lög heimili fóstureyðingar, eru þær siðlausar og brot á þeirri grundvallarreglu mannlegrar tilveru, að enginn maður hafi rétt, til að svipta annan mann lífi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:00 | Facebook
Athugasemdir
Mér finnst enn verra með þessi 10% sem lifa. Veit einhver hvaða tjón lyfjameðferðin hefur unnið á fóstrunum?
Karl (IP-tala skráð) 16.5.2010 kl. 22:41
Ég heyrði fréttina, Pjetur. Þessu máli var laumað gegnum kerfið með þrýstipoti Guðrúnar Ögmundsdóttur. Þarna er um 7–9 vikna fóstur að ræða skv. fréttinni. Tek undir orð þín og þakka þér hjartanlega fyrir að vekja athygli á þessu.
Jón Valur Jensson, 17.5.2010 kl. 01:00
Mér finnast þessi fóstureyðingalög, skömm fyrir Alþingi.
Það á bara að leyfa fóstureyðingu þegar lífi móður er hætta búin við að ganga með Og/eða eiga barnið
Ég er svolítið samt í vafa með þegar gerð er legvatnsástunga og komi í ljós að barnið sé vangefið á einhver hátt. Margir foreldrar eða foreldri geta ekki sinnt þannig barni.
En þetta mætti ræða við móðurina og ætti að vera leyft af félagslegum ástæðum.
Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 17.5.2010 kl. 13:08
Fóstur er ekki dauður hlutur en það er annað mál að segja að fjórar eða átta frumur séu mannvera þótt það sé lifandi eins og líffæri eða egg og sæðisfrumur eru lifandi. Kirkjan hefur ekki einu sinni alltaf verið á þessari skoðun, sbr. deilur um hvenær sálin kemur í fóstrið í gegnum aldirnar sem kirkjan gafst að lokum upp á og staðsetti við getnað. Þið hafið valið að skilgreina það svo en aðrir, þ.m.t. ég líta á maðurinn sé ekki maður fyrr en hann fer að taka þátt í mannlegu samfélagi og þ.a.l. ekki fyrr en fóstrið hefur þróað með sér skynfæri sem gera það mögulegt. Fram að því er ekki um mannlegt líf að ræða.
Kjartan Jónsson, 17.5.2010 kl. 13:13
Þetta er LÍF, Kjartan og það er ekkert annað en MANNLEGT líf, af tegundinni maður. Þú talar ekki fyrir hönd kaþólsku kirkjunnar hér. Spurningin um sálina var ekki meðhöndluð í nefndum tilvikum sem trúarleg, heldur (náttúru)vísindaleg. Kirkjunnar menn voru þar undir áhrifum frá föður margra vísinda, Aristotelesi, sem taldi sveinbarnsfóstur fá sálina um 40 daga gamalt, en meyfóstur um 80 daga. Meðal viðmiða hans, um að verur (m.a. dýrin) væru sálu gæddar, var hreyfigeta þeirra og blóðflæði. En hreyfinga frumfósturs er farið að gæta fyrir 40 daga meðgöngu, og hjartað er farið að slá í því um 18–21 dags gömlu.
Hin gömlu fræði Aristotelesar í þessu tilliti úreltust, við vitum betur nú, að allt frá fyrstu vikum frumfósturs er þetta mannleg vera og LIFANDI.
Þar að auki var það aldrei svo í sögu siðakenninga kirkjunnar, að hún teldi fósturvíg heimil fyrir 40 eða 80 daga meðgöngu – öll voru þau alltaf stranglega bönnuð.
Ef þú lítur svo á, að "maðurinn sé ekki maður fyrr en hann fer að taka þátt í mannlegu samfélagi," þá veðja ég ekki á samstöðu þína með lífi hinna ófæddu, jafnvel ekki 6–7 mánaða gamals barns í móðurkviði.
Standardar þínir eða viðmið eru geðþóttafull (arbitrary), eru t.d. víðs fjarri því sjónarmiði, að lífið skuli jafnan fá að njóta hugsanlegs efa.
Jón Valur Jensson, 17.5.2010 kl. 17:16
Ákaflega góður pistill hjá þér Pétur Hafsteinn. Ég er þér sammála, sérstaklega þegar þú segir: .."er afleiðing tíðaranda sem telur það til mannréttinda að fórna mannlegu lífi, jafnvel vegna félagslegra ástæðna". Það þarf að vinna þessari skoðun þinni fylgi því hún er heilbrigð, - já, gegn skeytingarleysinu og sjálfshyggjunni.
Guðmundur Pálsson, 17.5.2010 kl. 21:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.