Vindasamt á Arnarhóli

Hann stendur nokkuð hátt, Arnarhóllinn í henni Reykjavík og þar er harla  vindasamt.  Á þessum hóli er virki framkvæmdavaldsins.  Þar eru nær öll ráðuneytin og trónir Seðlabankinn á gamla Skansinum, þessu virki, sem verja skyldi Reykjavík, en varð í raun aldrei nema máttlaust  tákn þeirrar varnar.

Það þykir víst nokkuð fínt, að vera offiser í Skansinum, þ.e.a.s. bankastjóri Seðlabankans.  Má þó hverjum manni vera ljóst, að embættið það arna er fremur í ætt við drauma en veruleika í landi gjaldþrota þjóðar, ef ekki fjárhagslega, þá a.m.k. siðferðislega.

En stundum kostar draumsýn sitt.  Það var væntanlega í ljósi þess, að formaður bankaráðs Seðlabankans lagði það til um daginn, að laun Seðlabankastjóra skyldu hækkuð úr u.þ.b. 1.300.000 í 1.700.000 eða um 400.000.  Þykir sú hækkun bærileg laun venjulegs fólks í landi hér.

Kröftug mótmæli urðu til þess, að tillagan var dregin til baka.  En nú er sem engum sé ljóst, hvaðan hún kom, tillagan sú arna.  Verður því ekki annað séð, en vindar hafi feykt henni af hafi, án ábyrgðar nokkurs lifandi manns í stjórnkerfi þessa s.k. lýðveldis.

Vinstri stjórn, hægri stjórn,- hverju skiptir það?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband