Mótmæli við heimili stjórnmálamanna

Fyrir nokkrum árum hefði ég talið það jaðra við ósvífni, að veitast að stjórnmálamönnum, með mótmælaaðgerðum við heimili þeirra.  Hygg ég, að svo sé um fleiri.  En nú er öldin önnur.  Mér fannst að vísu ástæðulaust, að efna til mótmælaaðgerða við heimili dómsmálaráðherra, vegna framkvæmda á lögum, eins og gert var í vetur. 

Allt öðru máli gegnir um stjórnmálamenn, sem þegið hafa milljónir í „styrki" frá vægast sagt vafasömum aðilum í viðskiptalífinu.  Engum heilvita manni dettur annað í hug, en hér sé um mútur að ræða.  En stjórnmálamenn telja sig svo yfir almenning hafna, að þeir þurfi ekki að svara til saka.  Í mesta lagi lufsast þeir til að taka sér „frí frá þingstörfum", meðan mál þeirra eru í rannsókn.  Kannast einhver við, að innbrotsþjófar sleppi við varðhald, gegn því að „taka sér frí frá störfum", meðan á rannsókn mála þeirra stendur?

Undanfarin ár hafa stjórnmálamenn rofnað svo gjörsamlega úr tengslum við þjóðina, að jafnvel þeir sjálfir eru farnir að skilgreina sig sem „stjórnmálastétt" (lesist aðall).  Getur slíkt fólk vænst griða gegn mótmælum lýðræðissinna, hvar og hvenær sem er, í samfélagi sem það sjálft ofurseldi óprúttnum braskaralýð, eða myndaði ríkisstjórn, með þeim, sem það höfðu gert?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband