19.4.2010 | 23:24
Risaflugur á fréttastofu RÚV
Nú er vorið komið og blessaðar flugurnar farnar að gera vart við sig. Á mínum heimaslóðum eru þær ósköp temmilegar að stærð, nokkrir millimetrar á lengdina og breiddin ívið minni.
En á fréttastofu Ríkisútvarpsins gegnir öðru máli. Þar flögra risaflugur um sali. Stærð þeirra er slík að í sjónvarpsfréttum í kvöld, var sagt frá tveimur flugum, sem nýlega komu til landsins, klyfjaðar fleiri kílóum af kókaíni. Vitanlega voru flugur þessar algjörlega utan við lög og rétt, enda kókanínið smyglvarningur.
Ekki er ósennilegt, að fréttamaðurinn hafi átt við, að kókanínið hafi komið til landsins með tveimur flugvélum. Ég ætla að minnsta kosti rétt að vona það, ég hef nefnilega alltaf verið svolítið hændur að flugum og þær að mér.
Annars er Ríkisútvarpið ekki eitt um þetta ofmat á stærð flugna. Ég er ekki frá því, að allir fjölmiðlar landsins hafi undanfarna daga fullyrt, að frestur hafi orðið á flugum" vítt og breitt um Evrópu vegna gossins í Eyjafjallajökli. Sem sagt, flugurnar komast hvorki lönd né strönd.
Flokkur: Fjölmiðlar | Facebook
Athugasemdir
Ég held að flestir erlendir ferðamenn komi með flugum til landsins. Sumir koma samt með siglingum.
Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 20.4.2010 kl. 00:20
Svo virðist sem fréttamenn eigi erfitt með að gera greinarmun á flugum og flugvélum! Þegar ég las eftirfarandi fyrirsögn var ég að hugsa um hvort þetta væru fiskiflugur eða húsflugur...þótti nú máttur SAS í stærri kantinum en þessi fyrirsögn var á mbl.is um helgina:
Edda Karlsdóttir (IP-tala skráð) 20.4.2010 kl. 11:56
Var þessum flugum ekki aflýst????
Miðbæjaríhaldið
Bjarni Kjartansson, 20.4.2010 kl. 12:40
Í mínu ungdæmi var talað um, að flugferðum væri aflýst eða áætlaðri flugferð seinkaði.
Þetta var alvanalegt, enda hún Kidda systir flugfreyja hjá Flugflélagi Íslands, á faxar voru notaðir til flugs, bæði innanlands og milli landa.
Miðbæjaríahldið
Bjarni Kjartansson, 20.4.2010 kl. 12:43
Hægt er að aflýsa flugi eða flugferðum en held að það sé erfitt að aflýsa flugum, þær eru svo sjálfstæðar!
Edda Karlsdóttir (IP-tala skráð) 21.4.2010 kl. 10:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.