29.3.2010 | 16:29
Hvíslarinn og kattasmalinn
Hundar hlýða, kettir láta ekki ráðskast með sig. Þetta vita allir, sem til þessara dýra þekkja. Skyldi það vera í ljósi þessa, að Jóhanna Sigurðardóttir kvartar undan því, að sem forsætisráðherra sé hún í hlutverki kattarsmala"?
Mogginn segir frá þessum raunum frúarinnar í dag og bætir raunar um betur. Hann birtir nefnilega mynd af þeim Jóhönnu og Einari Karli Haraldssyni, en nærvera hans virðist þessa dagana vera forsætisráðherra mjög til yndisauka.
Hugmyndafræði er hinn almenni grundvöllur stjórnmála, hvar í heiminum sem er. Á Vesturlöndum er lýðræðið aftur á móti ófrávíkjanlegur grundvöllur þeirra. Þar er ætlast til þess, að stjórnmál séu rædd á opnum og lýðræðislegum vettvangi. Allt annað er aukaatriði eða útfærrsluatriði. Hitt er svo annað mál, að það sama gildir um stjórnmál og leikhús; aukaatriði" og aukahlutverk. Leikrit gengur ekki án aukahlutverka. Og vissulega eru þau mörg, aukaatriðin", sem huga þarf að í stjórnmálum.
Eitt þeirra er gagnsæi. Mikilvægi þess verður seint ofmetið í lýðræðislegu samfélagi. Í raun getur lýðræði ekki þrifist án gagnsæis og því í raun rangt, að tala um það sem aukaatriði", eins þótt innan gæsalappa sé. Þessu virðist Jóhanna Sigurðardóttur stundum ekki átta sig á. Skyldi þó aldrei vera að, af því stafi dálæti hennar á pukurmeistara íslenskra vinstri stjórnmála, sem fyrr var nefndur?
Sá maður er gamall Framsóknarmaður, sem lagðist í flakk með Ólafi Ragnari Grímssyni og félögum í s.k. Möðruvallahreyfingu". Það var löng og dapurleg eyðimerkurganga og viðkomustaðirnir margir. Ganga þessi endaði í Alþýðubandalaginu, sem fyrir vikið klofnaði niður í svörð. Í flokksfélaginu í Reykjavík var myndaður hallelújakór um persónu Ólafs Ragnars. Sá kór varð um síðir að sérstöku flokksfélagi. Það var þessi mannskapur, sem sameinaðist Alþýðuflokknum, svo úr varð Samfylkingin. Hinn hluti Alþýðubandalagsins stofnaði Vinstri græna.
Jóhönnu Sigurðardóttur virðist ýmislegt betur gefið en yfirvegun í lýðræðislegum anda. Því miður hættir henni til að rugla saman hollráðum og refshætti. Ég fæ ekki betur séð en hún hafi leitað á viðsjárverðar náðir Einars Karls Haraldssonar. Sá maður er enn í stríði við þá gömlu félaga sína innan Alþýðubandalagsins, sem ekki vildu lúta herra hans og meistara, Ólafi Ragnari Grímssyni. Í ljósi þessa verða orð Jóhönnu Sigurðardóttur um kattasmölun skiljanleg. Það er nefnilega hvíslari á leiksviðinu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.