23.3.2010 | 20:14
Skötuselslögin eru spor í framfaraátt
Ekki vantar æsinginn í blessaða mennina hjá L.Í.Ú. og Samtökum atvinnulífsins vegna samþykktar Alþingis á skötuselsfrumvarpinu s.k. Greinilegt er, að á þeim bæjunum óttast menn, að nú muni ganga eftir hið fornkveðna, að oft velti lítil þúfa þungu hlassi.
Skötuselsveiði vegur ekki þungt í íslenskum sjávarútvegi. Hitt vegur mun þyngra, að samkvæmt þessum nýju lögum, fær sjávarútvegsráðherra heimild til að selja kvóta á veiðar á umræddum fiski. Hér er því höggvið skarð í það arfavitlausa kvótakerfi, sem á ekki hvað minnstan þátt í hruni efnahagslífs þjóðarinnar.
Kvóti á fiskveiðar er nauðsynlegur til að koma í veg fyrir ofveiði. En sala einkaaðila á kvótanum er afsprengi þeirrar frjálshyggju", sem óhjákvæmilega hlaut að leiða til glötunar.
Auðvitað á ríkið eitt að úthluta veiðikvóta. Aðeins á þann hátt er hægt að tryggja jafnvægi í byggð landsins. Hitt er svo annað mál, að afturhvarf frá núverandi kvótakerfi tekur sinn tíma. Og auðvitað þarf í því sambandi að gæta sanngirni gagnvart þeim, sem keypt hafa veiðikvóta frá þeim, sem á sínum tíma fengu hann á silfurfati frjálshyggjunnar". Sklötuselslögin eru fyrsta skrefið á þeirri leið.
L.Í.Ú. og Samtökum atvinnulífsins er hollast að gera sér grein fyrir breyttum tímum. Og þessum samtökum er hollast að gera sér grein fyrir því, að þau eru hagsmunasamtök, en ekki hluti af stjórnkerfi ríkisins. Þeim er því fyrir bestu, að hlíta þjóðarvilja; ekki að reyna að stýra honum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hjartanlega sammála þér Pétur.
Vel skrifuð gein hjá þér en efast samt um að hún verði gerð áberandi á síðum Mbl.is/LÍÚ....
Kveðja frá Kína
sbg
Bragi Sigurður Guðmundsson, 24.3.2010 kl. 05:21
Þörf ábending, hefur þér ekki dottið í hug að benda LÍÚ á þetta,,, þeir eru jú hagsmunasamtök útvegsmanna en ekki hluti af stjórnvaldinu eins og Sjálfgræðisflokkurinn heldur. Vonandi er Framsókn líka að fatta þetta.
Sverrir Einarsson, 27.3.2010 kl. 11:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.