14.3.2010 | 14:54
Verða lýðræði og lýðskrum ekki aðskilin?
Það getur verið þarflegt, að velta því fyrir sér, hvort lýðræðið sé endilega reist á siðferðilegum grunni, eins og til var ætlast í upphafi þess stjórnarforms. Sé ekki svo, hlýtur sú spurning að vakna, hvort það þjóni í raun þeim tilgangi, að vera birtingarmynd á siðferðislegum þörfum og óskum lýðsins. Ef svarið við þeirri spurningu er neikvætt, hlýtur lýðinn að hafa borið af leið.
Tökum dæmi. Undanfarin ár hafa ýmsir Sunnlendingar beitt sér mjög fyrir breikkun Suðurlandsvegar. Telja þeir, að með því muni umferðaröryggi aukast. Auðvitað er það rétt, þótt menn verði vitanlega að sýna aðgát í akstri, hversu breiðan veg, sem þeir aka um.
En nú kemur athyglisverð þversögn. Einn þeirra, sem beitt hefur sér mjög þessu máli til framdráttar, var fyrir nokkrum árum handtekin vegna ölvunaraksturs, þar sem hann ekki aðeins keyrði niður ljósastaur, sem óneitanlega bendir til ofsaaksturs, heldur gerði einnig tilraun til að villa um fyrir lögreglunni, með því að reyna að telja henni trú um, að farþegi í bifreiðinni hefði setið undir stýri. Þetta gerði hann eingöngu til að bjarga eigin skinni, m.ö.o, til að koma sér undan ábyrgð eigin misgjörða.
Nú hefur þessi sami maður verið leiddur til öndvegis á framboðslista Sjálfstæðisflokksins á Selfossi í komandi bæjarstjórnar-kosningum. Þess skal getið, að hann var einn um að sækjast eftir fyrsta sæti framboðslistans, sem út af fyrir sig hlýtur að nokkuð furðuleg birtingarmynd lýðræðis.
Vissulega vann hann lýðræðislegan sigur í prófkjöri. Þó má deila um prófkjör. Það sama gildir um þá birtingamynd lýðræðis, sem við þekkjum.
Maðurinn, sem hafnaði í fyrsta sæti á framboðslista síns flokks á Selfossi er í sjálfu sér aukaatriði. Hins vegar hljóta menn að velta fyrir sér, siðferðislegri ábyrgð þeirra, sem kusu hann, sem og því, hvort óafmáanlegt samhengi sé milli lýðræðis og lýðskrums. Ef svo er, þjónar lýðræði ekki tilgangi sínum, a.m.k. ekki í þeirri mynd, sem við þekkjum það.
Vonandi finnum við viturlegri lausn á þessum vanda, en þá, að lýðurinn afsali sér öllum völdum í hendur fárra manna. En þá verða menn að gera sér ljóst, að lýðræði er ekki aðeins einn þáttur mannréttinda, í því felst einni ábyrgð og ígrunduð ákvarðanataka, þar sem hlutirnir eru settir í rökrétt samhengi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hvað í ósköpunum ertu að fara með þessari færslu Pétur? Vilt þú að allir sem hafa gerst brotlegir við lög, sama hvaða nafni nefnist , verði aldrei kjörgengir til opinberra starfa? En mega þeir þá til dæmis verða kennarar eða fóstrur?
Ég skil ekki heldur þessa tengingu við lýðskrumið ... Lýðskrum er eitt og lýðræði annað. Ekki einu sinni sitt hvor hlið á sama pening
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 14.3.2010 kl. 15:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.