25.2.2010 | 13:47
Umfjöllun Kiljufélaga um Geir Kristjánsson
Það var vel við hæfi, að Egill Helgason og félagar skyldu í sjónvarpsþætti sínum, Kiljunni" í gærkvöldi, fjalla um bókina Sögur, leikrit ljóð". Að vísu er sú umfjöllun nokkuð seint á ferðinni, því bókin kom út árið 2001. En látum það vera.
Þarna er um að ræða heildarsafn, (þó ekki að fullu), Geirs Kristjánssonar. Ef marka má orð Egils og félaga, fékkst hann einungis við ljóðaþýðingar. En það var nú öðru nær. Í bókinni, sem Egill veifaði fimlega í þættinum, kennir ýmissa grasa. Geir var nefnilega einn af okkar bestu smásagnahöfunum, þótt aðeins sendi hann frá sér eitt smásagnasafn, Stofnunina". Sú bók er í þessu heildarsafni, sem og ýmsar þýðingar hans á óbundnu máli. Þá var hann og merkur leikritahöfundur. Þannig hefur útvarpsleikrit hans, Snjómokstur", verið flutt í útvarpsstöðvum víða um Evrópu. Þetta leikrit, ásamt reyndar einu öðru, er í umræddri bók.
Það væri óskandi, að Egill Helgason og félagar beittu sinni snotru þekkingu á bókmenntum að dulítið meiri nákvæmni í umfjöllun sinni um rithöfunda og verk þeirra, hvort heldur þeir eru lífs eða liðnir.
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 15:42 | Facebook
Athugasemdir
Því miður gleymast oft afburðahöfundar. Smásöguformið er þannig eitt vanmetnasta form íslenskra bókmennta og eru jafnvel mjög góðir höfundar sem náðu ótúlegum tökum, allt að því fullkomnun á því formi, nánast gleymdir og tröllum gefnir.
Fáir kannast orðið við Halldór Stefánsson og sennilega enn færri við Davíð Þorvaldsson sem dó einungis rúmlega þrítugur. Þó var hann samtímamaður Jóhanns skálds sem þekktur er af einungis einu kvæði, Söknuði.
Geir Kristjánsson var afburða rithöfundur en sem virðist nánast hverfa í skuggann af stærri og fyrirferðameiri höfundum. Mér fannst alltaf gaman að heyra Snjómoksturinn hans leikinn í útvarpinu, þessi kostulegi húmor með miklum bakgrunni.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 2.3.2010 kl. 09:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.