16.2.2010 | 23:03
Ótímabærar aðildarviðræður að Evrópusambandinu
Ég hygg að fleirum sé farið líkt og mér, varðandi hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ég vil skoða kosti slíkrar aðildar og galla, helst í friði fyrir stjórnmálamönnum, því þeim treysti ég ekki. En umfram allt vil ég, að þjóðin standi í lappirnar, þegar aðildarumræður hefjast. Það gerir hún ekki nú. Þvert á móti, íslenska þjóðin liggur eins og hundur flatur fyrir hvers manns fótum, siðferðislega og fjárhagslega á kúpunni og veit ekki sitt rjúkandi ráð.
Hvers vegna vill Evrópusambandið hefja aðildarviðræður við okkur einmitt nú? Í Brussel vita menn sem er, að aðeins einn stjórnmálaflokkur á Íslandi vill inngöngu þjóðarinnar í Evrópusambandið, þ.e.a.s. Samfylkingin. Hún er nú í ríkisstjórn, en óvíst hve lengi það verður.
Það skiptir miklu fyrir Evrópusambandið, að geta samið um aðild Íslands að sambandinu, meðan eini flokkurinn, sem vill inn í sambandið, fer með forræði forsætis- og utanríkisráðyneytisins á Íslandi, sérstaklega í ljósi þess, að Samfylkingin er bundin í báða skó varðandi Evrópumálin.
Íslendingar verða að ná áttum, áður en til aðildarviðræðna kemur. Vinstri grænir létu undan kröfu Samfylkingarinnar og samþykktu, að gengið yrði til aðildarviðræðna, enda þótt það gengi þvert á stefnu þeirra. Þar létu þeir undan hótunum Samfylkingarinnar um stjórnarslit. Nú eiga þeir að gjalda líku líkt og krefjast þess, að frá aðildarviðræðum verði horfið meðan kreppan varir, að öðrum kosti leggi ríkisstjórnin upp laupana.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.