15.2.2010 | 08:27
Verður ekki að takmarka jöklaferðir?
Fyrir skömmu varð það hörmulega slys á Langjökli, að kona og sjö ára sonur hennar féllu niður í sprungu. Konan beið bana, en drengnum var bjargað.
Menn kynnu að ætla, að fólk lærði eitthvað af svona hörmungar atburðum. En það virðist ekki eiga við um alla. Í gær villtist útlend kona og tólf ára sonur hennar á jöklinum. Urðu þau viðskila við ferðafélaga sína. Allt er þetta fólk óvant jöklaferðum, að sögn fjölmiðla.
Nú fór betur en á horfðist og fannst fólkið heilt á húfi í nótt, eftir að u.þ.b. 300 björgunarmenn höfðu verið kallaðir til við erfiðar aðstæður. Skyggni var slæmt og veður válynd. Hvorugt kom á óvart, því Veðurstofan hafði varað við þessu. Auk þess hefur það ítrekað komið fram, að hlýindin í vetur gera jöklaferðir að mun meira hættuspili en verið hefur. Hljóta slíkar ferðir fólks, sem ekki er vant svona ferðalögum þó jafnan að orka tvímælis.
Það skuggalega í sambandi við leitina í gær og í nótt er, að mæðginin voru í ferð með hópi fólks, sem leigt hafði snjósleða hjá íslenskri sleðaleigu. Menn hljóta í framhaldinu, að velta alvarlega fyrir sér ábyrgð eigenda þeirrar leigu, sem og hinu, hvort ekki sé nauðsynlegt, að takmarka ferðir sem þessar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Mér finnst frekar að skylda ætti þá sem fara að vera með staðsetningartæki á sér.
Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 15.2.2010 kl. 10:51
Þarna virðist ekkert hafa verið skeytt um það þó varað hafi verið við veðrabreytingum í marga daga sem gekk svo eftir. Ekki í fyrsta sinn sem menn hafa veðurspár að engu.
Sigurður Þór Guðjónsson, 15.2.2010 kl. 11:37
Svona starfsemi á að vera leyfisskyld og eftirlitsskyld. Þannig á ekkert fyrirtæki að geta skipulagt ferðir án þess að hafa til þess tilskilin leyfi og að allt öryggi sé eins og það best verður á kosið. Tryggingamál eru sennilega meira og minna í ólestri, hugsunarhátturinn „þetta reddast“ virðist því miður vera allt of algengur.
Kveðja
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 24.2.2010 kl. 13:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.