Hve lengi ætlar Jóhanna að hygla Einari Karli?

Jafnaðarstefnan gengur út á þá einföldu og fögru lífssýn, að efnalegur jöfnuður skuli ríkja meðal manna.  Þannig veitist hverjum og einum tækifæri til andlegs þroska.  Þetta þýðir ekki, að allir eigi að hafa nákvæmlega sömu launin.  Hins vegar krefst jafnaðarstefnan þess, að launamunur sé innan skynsamlegra marka.  Að öðrum kosti lifa tvær þjóðir í landi hverju.

Einar Karl Haraldsson upplýsingafulltrúi Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, á mjög erfitt með að skilja undrun almennings á því, að almannafé skuli sóað í að halda honum uppi fáum misserum eftir að hann var vikapiltur útrásarmanna hjá Kaupþingi.  Orðrétt lætur hann hafa eftir sér í DV: „Það talaði enginn um að Kaupþing væri að fara á hausinn árið 2007".

Sú fullyrðing er röng.  Og það sem meira er, allt frá einkavæðingu bankanna árið 2002, talaði fjöldi manns um, að þeir hefðu hafnað í höndum glæpamanna, samkvæmt helmingaskiptareglu Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna. 

Einar Karl Haraldsson hefur lengi haft með höndum nokkurn starfa fyrir ríkiskirkjuna, sjálfsagt á þokkalegum launum, enda maðurinn mikils virði að eigin áliti.  Ekki veit ég hvort hann hefur setið með prelátum og rætt um þýðingu Matteusarguðspjalls, 6. kafla, 24. vers, en þar segir:  „Enginn getur þjónað tveimur herrum.  Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn.  Þér getið ekki þjónað Guði og mammón". 

Fjarri sé mér, að blanda saman stjórnmálum og trú.  Þó gildir það sama í báðum þessum þáttum tilverunnar, að þar verður ekki tveimur herrum þjónað.  Einar Karl Haraldsson mun aldrei skilja það.  En Jóhanna Sigurðardóttir mætti fara að leiða hugann að því og velja sér til liðs fólk, sem veit út á hvað jafnaðarstefnan gengur.  Geri hún það ekki, hefur hennar tími ekki aðeins komið, heldur einnig runnið sitt skeið á enda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnar Eiríksson

Það fer betur að segja "Hve lengi...." í fyrirsögninni!

Annars er ég sammála, af manninum ósar spillingin og Jóhanna er einskisnýt liðleskja sem virðist aldrei hlusta og ekkert gera!

Ragnar

Ragnar Eiríksson, 14.2.2010 kl. 10:41

2 Smámynd: Pjetur Hafstein Lárusson

Þakka þér fyrir ábendinguna.

Pjetur Hafstein Lárusson, 14.2.2010 kl. 11:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband