9.2.2010 | 22:40
Lygi hér og þar og allsstaðar
Allt fram undir hrunið í október 2008, lugu forsvarsmenn Fjármálaeftirlitsins því, jafnt innan lands sem utan, að allt væri í stakasta lagi með fjármálakerfi þjóðarinnar. Reyndar voru þeir ekki einir um þá iðju, ekki má gleyma klappstýrunni á Bessastöðum. Svo seint sem í marsmánuði sama árs, kom Björgvin G. Sigurðsson þáverandi viðskiptaráðherra, og þar með æðsti yfirmaður Fjármálaeftirlitsins í sjónvarpið og flutti útrásarvíkingum slíkan dýrðaróð, að hann taldi meira að segja nauðsynlegt, að hagræða skatta- og fjármálakerfinu í þeirra þágu, enn frekar en Davíð Oddsson og félagar höfðu þegar gert.
Ég skal ekkert um það segja, hvort þessir menn lugu að sjálfum sér, til þess að kveða upp úrskurð varðandi slíkt vafaatriði, þarf læknisfróða menn, sem starfa inn við sundin blá. En hitt er ljóst, að þeir lugu að þjóðinni, sem raunar var nógu blind, til þess að vilja trúa lyginni. Því fór sem fór.
En að þessir sömu menn gangi nú fram fyrir skjöldu og neiti þeirri fullyrðingu starfsmanna hollenska seðlabankans, að þeir hafi logið í þá varðandi Icesave, er út í hött. Hví skyldu þeir sem ljúga heima hjá sér, ekki allt eins gera það á öðrum bæjum?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:50 | Facebook
Athugasemdir
Sammála þér, þetta er alltsaman meia og minna óhæft lið, taktu eftir hvað er að koma í ljós um einkavæðingalygafárið með Landsbankann, það plott verður að draga frammí dagsljósið. blekkingar Davíðs um rússagull Björgólfs, virðast hafa verið plott frá honum sjálfum, til að gera Landsbankann að valdapýramída fyrir flokkinn og sjálfan sig.
Robert (IP-tala skráð) 10.2.2010 kl. 10:48
Eru þessir menn ekki margsaga?
Þeir lifðu í blekkingum og vöfðu þjóðina inn í skelfilegan flækjuvef falskra væntinga. Voru þessir menn svipað innrættir og Adolf þegar hann var búinn að koma sér fyrir í neðanjarðarbyrginu og vildi ekki trúa neinu því sem herfoiringjarnir voru að reyna að koma honum fyrir sjónir? Það átti bara að fara alla leiðina niður í þær hörmulegustu stöðu sem hægt var að komast í.
Fyrir tveim árum réttum var alveg ljóst að bankarnir væru komnir af fótum fram. Hefðu stjórnvöld tekið þá af skarið hefði verið unnt að bjarga miklu. Þannig hefði verið komið í veg fyrir gríðarleg útlán til ýmissa braskara himinhárra fjárhæða gegn lélegum eða janvel engum veðum og tryggingum. Gekk ekki aðeins einn maður, Róbert Tschenquiz með 280 milljarða út úr Kaupþing örfáum vikum fyrir hrunið og engar eða mjög lélegar tryggingar að veði?
Þá er alltaf eitthvað nýtt að koma í ljós: Geir Haarde stjórnin hafði samið við Breta um Icesave á miklu lakari kjörum. Svo gera þessir menn allt vitlaust nokkrum mánuðum seinna? Hverra er glæpurinn?
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 10.2.2010 kl. 13:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.