29.1.2010 | 16:43
Útvarpsstjóri verður að víkja
Nú er svo komið, að Ríkisútvarpið er eini fjölmiðill landsins, sem hægt er að gera kröfur til. Hinir ljósvakamiðlarnir hafa svo sem aldrei verið beysnir. Hinar s.k. frjálsu" sjónvarpvarpsstöðvar eru í raun að mestu leyti amerískar myndbandaleigur og innlent efni þeirra, meira og minna stælingar á amerískri lágmenningu. Einkareknar útvarpsstöðvar virðast, eftir efninu að dæma, fyrst og fremst hugsaðar sem unglingafóður.
Auðvitað hefur Ríkisútvarpið aldrei verið hafið yfir gagnrýni frekar en önnur mannanna verk. En það hefur, umfram aðra fjölmiðla, nálgast þokkalegan fréttaflutning og Rás 1 hefur útvarpað ágætis þáttum. Sumir þeirra eru unnir af starfsfólki útvarpsins, aðrir aðkeyptir. Reyndar eru greiðslurnar fyrir aðkeypt útvarpsefni RÚV svo lágar, að menn vinna slíkt efni ekki nema af hugsjónaástæðum. En það er önnur saga.
Því miður verður að segjast eins og er, að Ríkisútvarpinu hefur nokkuð hrakað í útvarpsstjóratíð Páls Magnússonar. Ekki er þó alveg víst, að þar sé eingöngu við hann að sakast. Sú Heimdallarlega ákvörðun Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, þáverandi menntamálaráðherra og flokks hennar, Sjálfstæðisflokksins, að gera RÚV að ofpnberu hlutafélagi, var tvímælalaust til skaða.
En þótt Páll Magnússon deili sök með Sjálfstæðisflokknum, en innan raða hans er að finna menn, sem vilja Ríkisútvarpið feigt, þá verður því ekki neitað, að Páli hafa verið mislagðar hendur í stöðu útvarpsstjóra.
Enginn dregur í efa, að þörf er á sparnaði innan RÚV. En sá sparnaður má ekki bitna á fréttaflutningi, allra síst, eins og nú er ástatt í þjóðfélaginu. Spara má á ýmsum öðrum sviðum. Fyrir það fyrsta mætti lækka laun útvarpsstjóra og láta hann endurgreiða bílafríðindi sín. Þau flokkast einfaldlega undir spillingu. Sama er að segja um lestur hans á sjónvarpsfréttum. Þá mætti að skaðlausu fella Kastljós niður og taka þess í stað upp markvissan fréttaskýringaþátt. Og umfram allt þarf að leggja af vitleysu eins og þátttöku okkar í evrópsku söngvakeppninni. Það er einfaldlega út í hött, að kasta milljónum á milljónir ofan í slíkan barnaskap.
Nú er verið að draga úr fjárframlögum til landshlutastöðva RÚV. Það er mikill skaði. Ríkisútvarpið er útvarp allra landsmanna, ekki bara Reykvíkinga og okkar nærsveitamanna. Fjölbreytt útvarps- og sjónvarpsefni frá öllum landshlutum er ekki gæluverkefni Ríkisútvarpsins, heldur skylda þess og um leið styrkur.
Enda þótt leiða megi viss rök að því, að ófarir Ríkisútvarpsins undanfarin misseri eigi sér rætur í s.k. frjálshyggju", verður því ekki neitað, að ábyrgð Páls Magnússonar útvarpsstjóra er mikil. Vilji svo slysalega til, að fiskifæla sé sett í brúnna, verður hún að yfirgefa dallinn, svo einfalt er það. Og það er full ástæða til að færa rekstrarform RÚV til fyrri vegar, þó með þeirri breytingu, að stjórnmálaflokkarnir verði ekki einir um að skipa menn í útvarpsráð. Þar verða aðrir að hafa sína fulltrúa, eins og var á fyrstu árum útvarpsins, svo sem Háskóli Íslands, verkalýðshreyfingin, Neytendasamtökin, vinnuveitendur, mannréttindasamtök, náttúruverndarsamtök og ýmsir fleiri.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Mestu af þessu er ég sammála. Mér hefur þótt óþarflega mikil fyrirferð í úreltum afþreyingarmyndum sem greinilega hafa verið fluttar inn í gámum. Hægt er að leysa allar menningarskyldur Rúv og leggja þó niður rekstur Stöðvar 1.
Það er auðvelt með samningi við frjálsa sjónvarpsstöð sem leigði Rúv fréttatíma og sýndi menningartengda sjónvarpsþætti sem unnir væru fyrir - eða leigðir af Rúv. Rás 1 er mikilvæg útvarpsstöð, íhaldssöm innan góðra marka og stjórnað af hinum frábæra dagskrárstjóra Gunnari Stefánssyni.
Árni Gunnarsson, 29.1.2010 kl. 18:38
Sigmar Guðmundsson starfsmaður RÚV heldur því fram að Eurovision skili hagnaði, bæði vegna gjalds fyrir innhringingar og auglýsingatekna.
sel það ekki dýrara ..
Halldór Carlsson (IP-tala skráð) 29.1.2010 kl. 23:47
Ég var að vona að þetta innlegg Pjéturs væri af skynsamlegu viti. En þegar hann flokkar aðra fjölmiðla en RUV, alrangt, missti ég áhugann á innsendingunni. Vandi RUV er aldurinn og litlar breytingar áratugum saman. Tíminn í Efstaleitinu er ekki mældur í mínótum, dögum eða vikum. Tímaeiningin eru áratugir. Helsti gallinn á viðhorfum til RUV er algjört áhugaleysi. Núverandi stjónr RUV hefur ekkert gert til að „tosa" fyrirtækið inn í nútímann. Ein helsta forsendan fyrir breytingum til hins betra er að fá ósvikinn athafnamann til að stjórna fyrirtækinu. Núverandi stjórnendur s.s. Páll, Sigrún Stefáns, Bjarni Guðmundsson og Óðinn fréttastjóri hafa akkúrat ekkert í það að gera, að umbreyta RUV til nútímalegra starfshátta.
Ég hef um langan tíma fylgst með rekstri ríkisfjölmiðlana í Noregi, Svíþjóð og Dabmörku. Mjög fagleg stjórn á rekstri og dagskrárgerð. Af þeim frændum má margt læra. En það hentar víst ekki.
Bjarni Dagur Jónsson (IP-tala skráð) 30.1.2010 kl. 10:55
Notum Norska lánið í að fjármagna heiðarlegan fréttaflutning til allra Íslendinga en ekki bara framboðs-pólitískan og ó-hlutlausn fréttaflutnig. Þannig hjálpa Normenn okkur best.
Falskur og villandi fréttaflutningur er að keira þetta þjóðfélag endanlega í kaf og almenningur treystir enn á svika-valda-menn eins og Tryggva Þór Herbertsson og fleiri sem eru fjármagnaðir af almennum heiðarlega vinnandi þjóðfélags-þegnum og heiðarlega reknum fyrirtækjum þessa lands.
Hann notar svo fjármagnið sitt í einkarekstur og mattador-spilamennsku á Indlandi í sína eigin þágu en ekki íslendinga! Það er að sjálfsögðu algjört skilyrði að hann segi af sér sem þingmaður þjóðarinnar. Það erum við almenningur sem borgum honum laun til að hann vinni í þágu Íslendinga.
RÚV er svo að sjálfsögðu skyldugt til að fræða okkur um allan sannleikan á ó-flokksbundinn hátt. Við eigum ekki að þurfa að kaupa okkur áskrift að erlendum sjónvarps-stöðvum til að heyra sannar og óflokksbundnar fréttir. Og síðan borga nefskatt fyrir pólitískan auglýsinga-áróður og svika-fréttamennsku RÚV.
Þetta er eiginlega orðið verra en á þeim tíma sem ekki var komið útvarp á Íslandi, því lyga-fréttamennskan eða hálf-sannleika-fréttamennskan er verri en ekki neinar fréttir. Og einungis hugsuð til að þjóna einstökum svika-öflum í landinu en ekki heiðarlegu fólki! Mæli með DV því þar er verið að sinna þjóðinni en ekki pólitískum öflum. M.kv. Anna
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 30.1.2010 kl. 13:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.