25.1.2010 | 23:39
Þrískipting valds?
Þrískipting valds, milli löggjafarvalds, dómsvalds og framkvæmdavalds er almennt talin undirstaða nútíma lýðræðis. Verulega hefur þetta stjórnkerfi þótt laskað hér á Íslandi, sérstaklega vegna styrkrar stöðu framkvæmdavalds á kostnað löggjafavaldsins, sem og hins, að framkvæmdavaldið skipar í stöður dómsvaldsins, þ.á.m. hæstaréttardómara. Að þessum sökum verður Ísland tæpast talið til lýðræðisríkja og alls ekki til þroskaðra ríkja í þeim skilningi.
Leiða má gild rök að því, að sú siðferðiskreppa, sem þjóðin á við að stríða, hefði aldrei komið til, ef ekki væri vegna þessa vanþroskaða lýðræðis. Einkavinavæðing Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna og eftirlitslaus eftirleikur hennar, væri útilokið í alvöru lýðræðisríki.
Flestum er ljóst, að mikið uppgjör er nauðsynlegt á Íslandi, eigi þjóðin að rétta úr kútnum, ekki aðeins í fjárhagslegum efnum, heldur fyrst og fremst siðferðilega. Í þessu sambandi er nauðsynlegt, að framkvæmdavaldið, þ.e. er ríkisstjórnin hætti þegar öllu leynimakki og fari að starfa fyrir opnum tjöldum. Alþingi verður og að láta til sín taka, með styrkari hætti en verið hefur.
En ekki má gleyma dómstólunum. Í dag birtist grein um Icesavemálið í Morgunblaðinu, sem tæpast væri tiltökumál, ef ekki væri fyrir þá sök, að hún er skrifuð af tveimur mönnum, þeim Sigurði Líndal og Jóni Steinari Gunnlaugssyni. Sá síðarnefndi er sem kunnugt er hæstaréttardómari.
Nú er ekki að vita, nema ýmislegt eigi eftir að koma í ljós, t.d. í sannleiksskýrslunni", sem enn er verið að skjóta á frest að birta, sem geri það að verkum, að mál komi fyrir dómstóla, þar sem fyrrum handhafar framkvæmdavalds verða látnir svara til saka. Því verður það að teljast í hæsta máta óheppilegt, að hæstaréttardómari, sé að tjá sig opinberlega um jafn eldfimt efni og hér um ræðir. Þess utan er það grundvöllur hins þrískipta valds, að hver sitji á sinni þóft og sé ekki að blanda sér í það, hvernig aðrir hagi sínu áralagi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Bandaríkjamenn, þar sem þessi umrædda þrískipting er hvað mest, telja sig hafa aldrei verið í meiri siðferðislegri kreppu en einmitt nú. Margir þar vestra hafa komist að því að þessi þrísksipting hafi ekkert leyst þeirra mál og sé reyndar hluti af vandmálinu.
Bretar hafa aftur á móti mjög óljósan mun á milli þessara þriggja þátta stjórnsýslunnar. Þingið er því sem næst alveg undir hælnum á framkvæmdavaldinu og jafnvel hluti dómsvaldsins, þ.e. framkvæmdavaldið getur skipa "Law Lords" nokkurn vegin eftir behag.
Beggja meginn Atlantsála ræða menn siðferði í stjórnmálum líka. Er talað um að almenna viðhorfsbreytingu þurfi, frekar en að reka hið vonda út með lögum. Við sjáum líka, t.d. í Icesave umræðunni hversu túlkun laga getur verið mismunandi.
Það er sá standard sem almenningur setur, sem fyrst og síðast skiptir máli. Almenningur verður að draga vagninn. Við fáum einfaldlega þá valdhafa og stjórnvald sem við eigum skilið.
Thomas Jefferson vildi hafa e.k. hallarbyltingar með reglulegu millibili, helst ekki lengra en 10 ára fresti, til að hreinsa til í kerfinu.
Jónas Egilsson, 26.1.2010 kl. 23:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.