24.1.2010 | 15:02
Borgarskáld, hvað er nú það?
Það er nú svo með hugtök, að þau eru oft flóknari, en ætla mætti í fljótu bragði. Þetta á t.d. við um hugtakið borgarskáld". Eins og ég hef þegar fjallað um á blogginu (2008), samþykkti bæjarstjórn Reykjavíkur það í árslok 1934, að Tómas Guðmundsson væri borgarskáld". Þetta var gert í ljósi þess, að hann orti mikið og fagurlega um Reykjavík.
En bæjarfulltrúunum láðist að gæta þess, að Tómas var sveitamaður og orti sem slíkur. Hann leit bæinn með augum sveitadrengsins úr Grímsnesinu. Þaðan kemur þokki ljóða hans, sem allt ljóðrænt fólk metur svo mikils, sé það á annað borð handgengið íslenskri ljóðlist.
Annar sveitamaður settist að í Reykjavík á millistríðsárunum og hét sá Aðalsteinn Kristmundsson, betur þekktur sem Steinn Steinarr. Reykjavík sem slík, varð honum sjaldan yrkisefni. En hún mótaði skáldgáfu hans. Hann er því ekki síður borgarskáld" en Tómas Guðmundsson. Raunar varð hann Nestor þeirra ungu skálda, sem ýmist uxu úr grasi í Reykjavík (Hannes Sigfússon), eða tóku þar út bókmenntalegan þroska sinn. (Jón Óskar, Einar Bragi, Stefán Hörður Grímsson, o.s.frv.) Öll urðu þessi skáld fyrir meiri eða minni áhrifum frá Steini. Raunar gætti áhrifa hans mun lengur, þ.á.m. á þá skáldakynslóð, sem nú telst miðaldra. Sé þessa gætt, er Steinn Steinarr ekki síður borgarskáld" en Tómas Guðmundsson.
Svo má ekki gleyma Vilhjálmi frá Skáholti, sem var náttúrulega mesta borgarskáldið" í þeirri merkingu, að Reykjavík ól hann við brjóst sér; á strætum hennar gekk hann frá vöggu til grafar og orti henni mörg fögur ljóð.
En borgarstjórnaríhaldið í Reykjavík hefur ekki skilning á þessu. Það vill eiga sitt borgarskáld" í samræmi við samþykkt bæjarstjórnar í árslok 1934. Hvaða flokkur skyldi hafa verið í meirihluta þá?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:28 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.