Stytta af Tómasi?

Nils Ferlin 1898-1961 by annsphoto.   Vinningstillagan að styttu af Tómasi Guðmundssyni.

Árið 2008 fagnaði borgarstjórn Reykjavíkur aldarafmæli Steins Steinarrs, með því að samþykkja tillögu Kjartans Magnússonar borgarfulltrúa, um að reisa styttu af Tómasi Guðmundssyni.  Um leið og ég endurtek gagnrýni mína á þá ákvörðun, frá því hún var tekin, vil ég taka það fram, að fá skáld met ég umfram Tómas. Hitt er annað mál, að það má merkilegt heita, að sonur jafn inngróins kúltúrmanns í Reykjavík og faðir Kjartans, Magnús Þórðarson var, skuli sýna af sér slíkan menningarskort.  En það er nú svo, að standi eikin ofarlega í hlíð, vill eplið rúlla frá henni.

Efnt var til samkeppni um gerð minnismerkisins og var niðurstaða hennar kynnt nú í vikunni.  Því miður er styttan, sem reisa á við suðurenda Tjarnarinnar í sumar, harla lík styttu af sænska skáldinu Nils Ferlin, sem stendur, eða réttara sagt situr á bekk í sænska bænum Filipstad.  Hvort hér er um tilviljun að ræða eður ei, skal ósagt látið.  Raunar munu slíkar styttur standa víðar.  Veit ég þó ekki, hvort álíka algengt er að reisa skáldum styttur, þar sem þau sitja á bekk, eins og það, að upphefja kónga og herstjóra, sitjandi á hrossum víða um heim.

Einn er þó munur á styttunum; á styttunni af Nils Ferlin fer ekki milli mála, hver maðurinn er.  Ég sat á Mokka nú í vikunni og vorum við þar nokkrir, sem allir höfðum séð Tómas og sumir spjallað við hann, sammála um, að andlit hans væri óþekkjanlegt á styttunni.  Að vísu á styttan að sýna skáldið ungt að árum.  En ljósmyndir, sem ég hef séð af því frá því æviskeiði þess eru ekki líkar andlitinu á styttunni.

Höfundur styttunnar af Tómasi er ung myndlistakona.  Vonandi á hún eftir að þroskast í list sinni.  En hvorki henni né borgarbúum, að nú ekki sé talað um minningu Tómasar Guðmundssonar, er nokkur greiði gerður, með því að reisa verk hennar á almanna færi, áður en þeim þroska er náð.  Það hefur margt listamannsefnið farið fyrir lítið sökum ótímabærrar viðurkenningar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi stytta er fínn brandari og ekki veitir af þeim í baslinu.

Ekki hef ég hugmynd um það, hvort andlit hennar eða aðrir partar eru eitthvað líkir þeim Tómasi Guðmundssyni sem eitt sinn var á dögum. Hins vegar er hún eins og erkitýpa fyrir alla jakkafataklædda kalla sem hafa fengið sér helst til mikið neðan í því. 

Bara gaman að því.

En þetta með styttur af mektarmönnum á hestbaki. Þessháttar líkneski voru gjarnan reist kóngum og keisurum til dýrðar að afstöðnum styrjöldum. Er ekki jafnan eitthvert samhengi milli fótaburðarins hjá hrossinu og  ásigkomulags mektarpersónunnar við heimkomuna úr stríðinu? Þetta var einhverju sinni útskýrt fyrir mér við slíkt líkneski, það er langt síðan og áhugi minn á málefninu var takmarkaður. Mig rámar því ærið óljóst í þetta. En kannski felst einhver merking í því að hafa þessa slagsíðu á skáldinu á bekknum?

Kristján Sveinsson (IP-tala skráð) 23.1.2010 kl. 18:13

2 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Já þetta er virkilega skondið.

Í sögu Íslands sem kom út í hitt eð fyrra að mig mig minnir er mynd af samtíðarmanni Jóns Sigurðurssonar forseta (1811-1879) sögð vera af Oddgeiri Stephensen (1812-1885) stjórnardeildarforseta í danska dómsmálaráðuneytinu. Þegar betur er að gáð mun myndin vera af danska rithöfundinum og skáldinu H.C. Andersen en þessir tveir menn voru að nokkru leyti nokkuð líkir af ljósmyndum að dæma.

Það er oft kátlegt þegar svona uppákoma kemur upp. Mætti benda þér sem og öðrum góðum mönnum á  prýðisgóða ritgerð nóbelsskáldsins okkar sem Halldór nefnir: Listkúgun og birt er í riti hans: Dagur í senn, Reykjavík 1955, bls. 108-111. Þar gerir nóbelsskáldið okkar lítið úr þeim afkárahætti sem virðist öðru hverju gjósa upp í henni Reykjavík og einkennist af þeim hégóma að vilja reisa löngu gengnum skáldum sérstakar myndastyttur og setja upp á alfaravegum.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 23.1.2010 kl. 21:33

3 Smámynd: Njörður Helgason

Þetta benti égá daginn em stytta minningar Tómasar var kynnt.

http://nhelgason.blog.is/blog/nhelgason/entry/1007735/

Njörður Helgason, 24.1.2010 kl. 00:57

4 Smámynd: Jens Guð

  Styttur bæjarins sem enginn nennir að horfa á... Af hverju borga styttuunnendur ekki sjálfir fyrir styttur af "ædolum"? 

Jens Guð, 24.1.2010 kl. 02:30

5 identicon

Mér hefur alltaf fundist þessi Tómasarstyttuumræða frekar undarleg.  Þetta á að vera þriðja minnismerkið um Tómas.  Það er brjóstmynd af honum í Borgarbókasafninu og það er glerskúlptúr honum til heiðurs í Ráðhúsi Reykjavíkur.  Auk þess má spyrja hversvegna þessi ofuráhersla að gera Tómasi að hirðskáldi Sjálfstæðisflokksins?  Ég veit um tvö eða þrjú skáld sem hafa kosið flokkinn í gegnum tíðina.  Ekki fá þau styttu af sér.  Ég myndi vilja stíga skrefinu lengra.  Hví ekki að hafa skáldagarð við Tjörnina og einnig við Miklatúnið?  Til eru fleiri borgarskáld en Tómas.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 24.1.2010 kl. 09:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband