21.1.2010 | 19:56
Þrándur Thoroddsen - minning
Í dag var Þrándur Thoroddsen kvikmyndagerðamaður jarðsettur frá Bústaðakrirkju. Því miður gat ég ekki fylgt honum til grafar sökum veðurs, en langar til að minnast hans, með eftirfarandi ljóði.
Hvort skal harma liðna tíð,
er vínið létti lund?
Þá saga mörg um sali flaug
er kætti guma geð,
af selungi sem drökknaði
og pólskri næturstund
og kardináli í Krakáborg,
þar við sögu kom.
Þar glas var fyllt
og glas var tæmt
í reykjarkófi þéttu
og staka hraut af vörum manns
til gamans drykkjudrótt
þótt broddur kannske stingi nett
í skráp er þoldi gnótt.
En nú er þögnuð röddin hrjúf
er huldi ljúflingsdreng.
Hann snertir ekki lengur
sinn káta sagnastreng.
En hvort skal harma liðna tíð,
er vínið létti lund?
Því svarar förukerling ein
er knýr á hvers þess dyr,
sem kembir hærur,-hokinn, einn
þótt forðum væri ungur sveinn.
***
Blessuð sé minning Þrándar Thoroddsen.
Athugasemdir
Vel kveðið ,Pjetur. Þrándur var drengur góður. Við unnum saman í mörg ár. Séra Pálmi flutti mjög góð minningarorð í Bústaðkirkju og þar var fögur tónlist og fjölmenni.
Fimm mínútum áður en athöfnin hófst sló rafmagnið út einum þrisvar sinnum og það rökkvaði kirkjunni. Ég er alveg viss um að okkar maður var til staðar og vildi bara hafa ljósin slökkt eins í bíó áður en myndin byrjar. Ég hef aldrei upplifað svona , en þetta var ekki einleikið.
Eiður Svanberg Guðnason, 21.1.2010 kl. 22:40
Þakka þér fyrir snjallt kvæði um magnaðan Þránd.
Ólöf Pétursdóttir (IP-tala skráð) 22.1.2010 kl. 11:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.