12.1.2010 | 22:46
Ólafur Ragnar dáður af ókunnugum
Það var fróðlegt að hlusta á Svan Kristjánsson prófessor í Speglinum í kvöld. Þar fjallaði hann um synjun Ólafs Ragnars Grímssonar á Icesavelögunum. Sýndi hann fram á það með rökum, hversu arfavitlaus sú ákvörðun forsetans var, að skrifa ekki undir lögin. Taldi hann raunar rökrétt, að ef Bretar og Hollendingar vildu á annað borð semja upp á nýtt, færi Ólafur Ragnar fyrir samninganefnd okkar, enda augljóst, að hann mundi ekki skrifa uppá aðra samninga, en þá, sem honum væru þóknanlegir. Auk þess benti hann á, að í raun væri landið stjórnlaust eftir synjun forseta.
Orð Svans eru ekki síst athyglisverð í ljósi þess, að þar mælir gamall vinur og samstarfsmaður Ólafs Ragnars. Annar gamall vinur forsetans, Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, kom fram í fréttum Ríkissjónvarpsins í kvöld. Þar fjallaði hann um þá ákvörðun sína, að hætta við að fara með forsetanum í opinbera heimsókn til Indlands. Lét hann þess getið í því sambandi, að forsetinn hefði vafalaust aðra en sig, til að bera fyrir sig töskurnar austur þar.
Fyrir nokkrum vikum naut Ólafur Ragnar Grímsson trausts aðeins 1% þjóðarinnar. Nú dásama 65% hennar þennan sama mann, ef marka má skoðanakannanir. En það leynir sér ekki, að þeir sem þekkja hann best, hafa á honum mestu skömmina.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Í Spegilinn komast bara prédíkarar um Evrópusambandsaðild. Um það snýst þetta jú, þrátt fyrir að menn reyni að sverja það af sér. Það er skandall að ríkisútvarpið haldi úti slíku prógrammi. Annars mættu þessir mætu herrar hugleiða hvaða áfellisdómur þetta er fyrir vinstri og jafnaðarmenn hér á landi og þá sjálfa.
Ef 65% dásama Ólaf fyrir að standa með fólkinu, þá er að minnsta kosti sama hlutfall sem púar á Kvislinga sem þessa.
Jón Steinar Ragnarsson, 12.1.2010 kl. 23:10
Ekki varð Svanur Kristjánsson sér og fræðum sínum til mikils sóma í Speglinum í gær og vanskilningur hans á stjórnarskránni og stöðu forsetans fullkominn. Orðum hans réð eitthvað annað en yfirveguð afstaða hlutlægs fræðimanns. Kom mér þessi túlkun og hlutdræg afstaða mjög á óvart. Hins vegar kom mér strákslegt og óviðurkvæmilegt tal Össurar ekki á óvart. Hann er dæmigerður fulltrúi umræðuhefðar sem þekkist óvíða á byggðu bóli - nema meðal íslenska stjórnmálamanna.
Tryggvi Gíslason (IP-tala skráð) 13.1.2010 kl. 11:28
Sæll Pjetur. Heyrði ekki viðtalið við Svan, en eins og þú vitnar í það, þá er ég mjög sammála. Svanur er greinagóður maður og skýrir mál sitt vel. Sú staða sem komin er upp núna hér á landi er að mínu áliti skelfileg. Þar kemur auðvitað fyrst til ákvörðun Ólafs Ragnars og svo sú gríðarlega múgæsing sem á sér stað í samfélaginu. Allir sem voga sér að skrifa gegn ákvörðun forsetans, eru dæmdir mjög hart, sem heimskir, tómir í hausnum, landráðafólk og að fara með bull/þvætting. Öll möguleg neikvæð lýsingarorð eru notuð og það eru örugglega einhverjir sem hrökkva til baka og hætta að skrifa og jafnvel skipta um skoðun.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 13.1.2010 kl. 16:54
Það er auðvitað alveg skelfilegt ástand að helvítis skríllinn fái eitthvað um það að segja hvort hann á að taka að sér að borga skuldir einkabanka! Fólkið á bara að taka þessu þegjandi, beygja sig fram og girða niður um sig og fá ESB upp í þurran afturendann möglunarlaust!
Gulli (IP-tala skráð) 13.1.2010 kl. 22:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.