Færsluflokkur: Dægurmál
5.5.2010 | 16:58
Suddi í Reykjavík - sól fyrir austan Fjall
Ég aumur maðurinn! Í morgun neyddist ég til að halda vestur yfir heiðina, eða suður, eins og það er jafnan kallað, þegar menn fara til Reykjavíkur, burt séð frá því, úr hvaða átt haldið er.
Þegar ég yfirgaf Hveragerði var nokkuð skýjað, léttskýjað þó. En á Hellisheiði, sem sumir kalla Fjallið, tók við suddi og þoka. Og ekki batnaði það, þegar komið var til Reykjavíkur. Borgin var grá, eins og aska í tunnu og regnið kvaddi sér hljóðs, líkt og til að hindra, að nokkrum manni yrði það á, að brosa.
Það var komið nón, þegar ég hélt aftur austur. Reykvíska eilífðar regnið að baki, suddi á Sandskeiði og þoka á heiðinni vestanveðri, gruggug og grá, eins og líf þeirra, sem hvorki kunna að meta angan vorsins né aðra fegurð lífsins. En þegar komið var austur að Kömbum, baðaði sólin Suðurland, svo langt sem auga eygði. Og ljúft var að setjast út á veröndina og taka ofan fyrir vaxandi gróðri.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.8.2009 | 10:50
Dulítið hryggðarljóð
Eftirfarandi ljóð skýrir sig sjálft en tekið skal fram að það var ort fyrir um það bil áratug, við fyrra fall Ólafs Ragnars af hrossi.
FORSETARAUNIR OG HUGGUN
Öxl sína hefur vor forseti brotið í falli,
af fláráðu hrossi, því lífið er veltingi háð.
Og undarlegt hvað menn falla af sínum stalli,
sem þeir hugðust þó hreykja sér á, bæði í lengd og bráð.
Það ber ei að efa að byltan varð manninum sár,
eins og svo margt sem gerist í þessu lífi.
En nú hafa blöðin borið oss frétt um eitt tár,
sem blikaði huggandi á kinn á hans meðreiðarvífi.
Já, dýrt er það hnoss sem himnafaðirinn veitir,
að hugga með blikandi tári riddarans stoltu und.
Það er sama hvað reiðskjótinn illskeytti annars heitir,
hér er runnin upp fögur og unaðsleg sigurstund.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.4.2009 | 22:24
Vísukorn um Bjarna Harðarson
Bjarni Harðarson bóksali á Selfossi er hinn mætasti maður, enda þótt hann hafi um tíma verið Framsóknarmaður. Slík yfirsjón fyrirgefst sumum, þ.á.m. honum. Þó þótti mér nokkuð langt gengið í morgun, þegar ég var staddur í bókabúðnni hans og heyrði hann kallaðan sóma Suðurlands. Af því tilefni varð til eftirfarandi vísa:
Sómi telstu Suðurlands,
Skagfirðingur hálfur.
Enda nokkuð beggja blands,
- bústólpi og álfur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
20.3.2009 | 10:02
Vorið er komið
Ég brá mér yfir Hellisheiðina í gær og var í bænum langt fram á kvöld. Gamli góði Miðbærinn iðaði af lífi, fólk gekk um götur, frá Hlemmi og niður í Kvosina. Það var hátíð í bæ. Kaffihúsin voru eins og fuglabjarg; þar söng hver með sínu nefi og mátti heyra ótal tungur hljóma. Þjónninn, sem gekk mér og mínum sessunautum til beina á Café París, var með það á hreinu, að vorið væri komið. Og ekki að undra; það þarf freðin hjörtu, til að skynja ekki vorið í loftinu. Fyrstu farfuglarnir eru komnir og starrinn fer um í flokkum og tístir sinn söng. Eftir nokkra daga mun brum birstast á trjánum og þá styttist í, að það taki ofan sinn græna hatt og bjóði sumarið velkomið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.4.2007 | 15:08
Gleðilegt sumar
Sú var tíð, að flestir Íslendingar flokkuðu það undir dónaskap að brosa, nema þá rétt út í annað munnvikið. Það slapp. Síðar breyttist þetta, og fólk fór að reka upp hlátursrokur yfir gjörsamlega innantómum aulabröndurum. Það var þegar menn tóku að hafa atvinnu sína af því, að standa upp á sviði og segja aulabrandara, oft með klæmnu ívafi. Eftir sem áður er talið, að varast beri, að tjá tilfinningar sínar, sérstaklega, séu þær jákvæðar. Aftur á móti þykir í stakasta lagi, að bölsótast út í lífið og tilveruna; sérstaklega þó veðrirð. Það er eins og fólk telji það aldrei að sínu skapi, a.m.k. ekki til lengdar. Skíni sól á himni í slíku logni, að ekki blakti hár á höfði, þá segja íslendingar: Þetta stendur ekki lengi. En þegar stormur hvín og frost bítur kinnar, þá segja allir: Við búum á mörkum hins byggilega heims. Og halda áfram að rækta fúllyndi sitt út í höfuðskepnurnar.
Eina fjarskalega ánægjulega undantekningu hef ég þekkt frá þessari reglu. Sá maður var svo jákvæður út í lífið og tilveruna, þar með talið veðrið, að vordag einn, þegar hann sá fagurt blóm í haga, varð það honum slík andleg upplyfting og sálarinnar fagnaðarefni, að hann dásamaði slíka fegurð, með því að detta í það í heila viku. Þetta var sá sómamaður Dósóþeus Tímótheusson. Megi minning hans lengi lifa.
Ég ætla bara rétt að láta ykkur vita af því, mínir elskulegu landar, að mín vegna megið þið blóta veðrinu og andskotast af því tilefni eins og naut í flagi. Það breytir ekki því, að ég óska ykkur gleðilegs sumars!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)