Færsluflokkur: Ljóð

Kvaddur Gunnar Dal

Grýtt er urðin,
gróin spor,
göngu lokið.

Gróin undin,
blómstrar vor,
horfið okið.


Síðsumarljóð

Tekið að skrjáfa í laufi
þegar vindur fer um það
þöndum vængjum.

Það boðar haust.

Þó dansa fuglar enn
um loftsali víða,
loftsali víða og bláa
meðan rifsberin roðna feimin
í garði mínum.

Já, víst boðar það haust;
það nálgast - nálgast
hægum en öruggum skrefum.

 


Að loknum kosningum

FLOKKAR

Flokkur" er fólk,
segja „flokkar" okkur.
Aftur á móti
er fólk ekki flokkur.
En forusta „flokka"
er fyrirtak.
Öllum miðar þeim áfram
afturábak.

 

Þetta ágæta ljóð birti Kristján frá Djúpalæk í bók sinni „Þrílækir" árið 1972.  Það er því ekkert nýtt, að fólk og „flokkar" eigi ekki samleið.  Og ekki hefur ástandið batnað, síðan þetta ljóð var ort.  Skyldu „flokkarnir" og forystumenn þeirra átta sig á því, eftir útreiðina nú? 

Ég efast um það.


Þrándur Thoroddsen - minning

Í dag var Þrándur Thoroddsen kvikmyndagerðamaður jarðsettur frá Bústaðakrirkju.  Því miður gat ég ekki fylgt honum til grafar sökum veðurs, en langar til að minnast hans, með eftirfarandi ljóði.

 

Hvort skal harma liðna tíð,
er vínið létti lund?
Þá saga mörg um sali flaug
er kætti guma geð,
af selungi sem drökknaði
og pólskri næturstund
og kardináli í Krakáborg,
þar við sögu kom.

Þar glas var fyllt
og glas var tæmt
í reykjarkófi þéttu
og staka hraut af vörum manns
til gamans drykkjudrótt
þótt broddur kannske stingi nett
í skráp er þoldi gnótt.

En nú er þögnuð röddin hrjúf
er huldi ljúflingsdreng.
Hann snertir ekki lengur
sinn káta sagnastreng.
En hvort skal harma liðna tíð,
er vínið létti lund?
Því svarar förukerling ein
er knýr á hvers þess dyr,
sem kembir hærur,-hokinn, einn
þótt forðum væri ungur sveinn.

***

Blessuð sé minning Þrándar Thoroddsen.


Vinátta

Ljóð þetta, sem ég kalla „Vináttu", birti ég hér í tilefni af argaþrasinu á Alþingi í dag.  Ljóðið orti ég á aðfangadag jóla.

 

Vinátta

Að leysa lífsgátuna,
hvern varðar um svar
við slíkri spurn?

En að lyfta glasi
í góðra vina hópi,
hittast á förnum vegi
og skiptast góðlátlega
á nokkrum orðum,
einfaldlega til að gefa til kynna
hve gaman sé að sjást;
vinur minn, það er lífið.

Svo getum við leyst lífsgátuna
í góðu tómi,
einir og út af fyrir okkur,
þó víst megi telja
að engir verði okkur sammála
í þeim efnum.


Ný ljóðabók eftir Gunnar Má.

Steinn Steinarr hélt því eitt sinn fram, að ljóð  væru í raun sendibréf milli skálda.  Það má svo sem til sanns vegar færa, að því tilskildu, að lesendur ljóða séu á sinn hátt skáld, eins þótt þeir yrki ekki.

Því flýgur mér þetta í hug, að Gunnar Már Gunnarsson hefur nú sent frá sé ljóðabók og kallar hana milli barna.  Útgefandi er bókaforlagið Uppheimar á Akranesi.  Og í þessari bók er ljóð, sem skáldið kallar „Sigfús Daðason í endursýn" og kveðst hafa ort yfir leiði Sigfúsar.

Ekki ætla ég mér þá dul, að setjast í sæti dómarans varðandi þessa litlu bók.  Læt þess aðeins getið, að ljóðaunnendum ætti að vera skaðlaust, að lesa hana í góðu tómi.  Sjálfum mér óska ég til hamingju, með að hafa gert það.

 


Ljóðaúrval Bjarna Bernharðs

Bjarni Bernharður er eitt þeirra skálda, sem prýða ekki einu sinni jaðar hinnar hátimbruðu „bókmenntastofnunar".  Hann stendur einfaldlega utan hennar.  Það er því gott til þess að vita, að nú skuli vera komið út úrval ljóða hans.  Bókina kallar skáldið „Skáldfák á heljarslóð".

Þarna er um að ræða ljóðaúrval sem rúmar rúmlega þrjá áratugi, eða tímabilið frá 1975 og fram á síðasta ár.  Hér verður þess ekki freistað, að gera úttekt á ljóðum Bjarna Bernharðs.  Aðeins skal þess getið, að ljóð hans eru grímulaus eins og skáldið sjálft.  Og verður tæpast meira krafist.

 


Lausn á ljóðagátu

Bestu þakkir fyrir svörin við ljóðagátunni frá í gær.  Rétt svar barst við fyrstu spurnigunni; ljóðið orti Einar Bragi. 

Svarið við annarri spurningunni er, að ort er í minningu Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi, en hann lést snemma árs 1964.

Svarið við þriðju spurningunni er, að ljóðið birtist í 10. árgangi Birtings.  Ekkert útgáfuár er gefið upp í þessu tölublaði, en Birtingur hóf göngu sína árið 1955.  10. árgangurinn hefur því komið út á dánarári Davíðs, 1964.

Í Birtingsútgáfunni er ljóðið nafnlaust.  Það er eina efnið á hægri síðu í opnu, en á vinstri síðunni er mynd af Davíð og undir nafni hans standa orðin „in memoriam".  Fer því ekki milli mála, hvert tilefni ljóðsins er.

Ljóðið birtist síðar, eða árið 1969 í ljóðabæklingi Einars Braga, „Við ísabrot" og þá undir heitinu „Bið", eins og fram kemur í svari Brahims. 

Eysteinn Þorvaldsson fjallar um Einar Braga á „Bókmenntavefnum" og telur ljóðið hafa upphaflega hafa birst þar.  Leiðréttist það hér með.


Ljóðagáta

Nýlega rakst ég á það ljóð, er hér fer á eftir í gömlu tímariti:

 

Hvílast í þögn og vaxa: vorsáð fræ
og vera sjálfur moldin, sem því hlúir,
regn sól og vindur, himinn jörð og haf -
 

hvílast í þögn og vaxa: verða tré
sem vetrarnakið bíður eitt og þráir
að finna brýnd við börkinn lítil nef.

Þá ymur tiginn álmur við og fagnar
Óðni vígður jafnt til söngs og þagnar.

 

Þetta fagra ljóð er ort til minningar um skáld.  Til gamans fylgja hér nokkrar spurningar handa lesendum að spreyta sig á.

1. Hver orti?

2. Í minningu hvers er ort?

3. Í hvaða tímariti birtist ljóðið og hvenær?

 























 

 


Bláir eru dalir þínir

Á tímum, þegar menn gerst þrasgjarnir úr hófi fram, er gott að fletta bókum, sem eru þeirrar náttúru, að þar mætir söngur þögn í órofa samhengi.  Slík eru verk Hannesar Péturssonar.  Þessu til áréttingar langar mig til að birta eitt þeirra ljóða hans, sem ég tel fegurst, en það birtst í Kvæðabók árið 1955 og ber heitið Bláir eru dalir þínir.

Bláir eru dalir þínir
byggð mín í norðrinu
heiður er þinn himinn
hljóðar eru nætur þínar
létt falla öldurnar
að innskerjum
- hvít eru tröf þeirra.

Þöglar eru heiðar þínar
byggð mín í norðrinu.
Huldur býr í fossgljúfri
saumar sólargull
í silfurfestar vatnsdropanna.

Sæl verður gleymskan
undir grasi þínu
byggð mín í norðrinu
því sælt er að gleyma
í fangi þess
maður elskar.

Ó bláir eru dalir þínir
byggð mín í norðrinu.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband