Færsluflokkur: Spaugilegt

Vísindi á villigötum

Oft verða vísindi líðandi stundar aðhlátursefni framtíðarinnar.  Í Mogganum í dag er sagt frá því, að vísindamenn hafi komist að því, að konur verði stöðugt fegurri í tímanna rás.  Segja þeir þetta helgast af því, að fagrar konur eignist fleiri börn, en hinar, sem sem ópenni hafi snoppu og búk.  Auk þess fullyrða hinir vísu menn, að fagrar konur eignist fremur dætur en syni.  Dæturnar erfa svo fegurð mæðra sinna. 

Þar sem hlutfall karla og kvenna er nokkuð jafnt, þýðir þetta auðvitað, að við karlar erum undan ljótum konum, sér í lagi, ef við eigum engar systur.  Kemur enda fram í rannsóknum þeim, sem fréttin styðst við, að fríðleiki okkar karla aukist ekki frá kynslóð til kynslóðar.

Í þessari frétt er vitnað í rannsóknir finnsks vísindamanns við Helsingiháskóla, að nafni Markus Jokela.  Einnig er þess getið í fréttinni, að þróunarsálfræðingur við London School og Economic, Satoshis Kanazawa, hafi komist komist að því, að fallegt fólk, karlar og konur, eigist fremur dætur en syni.

Það sem gerir rannsóknir sem þessar að aðhlátursefni er auðvitað það, að fegurð er afstæð.  Fyrr á öldum voru sólbrúnir kroppar t.d. viðurstyggð, a.m.k. í augum evrópskrar yfirstéttar.  Þá þóttu holdmiklar konur fagrar, en renglur þær, sem nú eru í tísku, töldust ljótari en allt sem ljótt var. Þær voru einfaldlega tákn um skort.

Æ, já, það er víst vissara, að taka fleiri s.k. vísindamenn með fyrirvara, en hagræðingana.


Innbrot í tukthús, fyrr og nú

Eins og mönnum er sjálf sagt enn í fersku minni, gerðist sá fáheyrði atburður um daginn, að maður nokkur reyndi að brjótast inn í fangelsið á Litla-Hrauni.  Vissulega er þetta nokkuð furðuleg uppátektarsemi, en þó ekki einsdæmi.  Skal nú vitnað í það merka rit Saga Reykjavíkur eftir Klemens Jónsson, fyrra bindi:

Um áramótin 1789-1790 var svo mikið drykkjuslark og óspektir í Reykjavík, að stiftamtmanni ofbauð.  Hann lagði því fyrir Skúla landfógeta að hafa þar duglegan mann í sinn stað, sem „pólití".  Hann neitaði því, þareð sjer bæri engin skylda til þess; þetta var rjett, því að heyrði undir sýslumanninn.  Á aðfangadagskvöldið komu þeir bræður Einar Jónsson og Jón Dúkur með fleirum upp í tukthúsið drukknir, og vildu komast inn, og er dyravörður varnaði þeim inngöngu, sló Einar dyravörð.  Skipaði þá stiptamtmaður Sigurði Pjeturssyni sýslumanni að hafa lögreglueptirlit í bænum.

Þetta var sem sagt upphaf nútíma löggæslu í þéttbýli á Íslandi.  Einar Jónsson, sem hér er nefndur til sögu, var á þessum tíma búsettur í Götuhúsum í Grjótaþorpi, en síðar í Þingholtum, raunar fyrstur manna.  Þeir bræður, Jón og hann, voru Skagfirðingar, sem flutst höfðu suður í Víkina.  Ekki er mér kunnugt um afkomendur Jóns og þætti vænt um, ef einhver gæti upplýst mig í þeim efnum.  Hins vegar veit ég, að stór ættbogi er kominn af Einari, og er ég í þeim hópi. 

Ég orti örlítið prósaljóð um Einar og birti það í ljóðabókinni Vökuborg og draums, sem Salka gaf út árið 2006.  Læt þetta fljóta með til gamans.

Götuhúsaslarkarinn

Ekki fer af honum annað sagna en
kotungshokur í Götu, ölæðisinnrás í Múrinn og
landmám í Þingholtum.  Nú jæja, það skilar
hver sínu þótt axarsköft sumra rati í sagnir
meðan tilbreytingarleysið tryggir öðrum eilífa þögn.


Handbolti og styttan af Pusjkin

Ekki  veit  ég hvers vegna þessi saga kemur upp í hugann nú þegar handboltaliðið kemur heim frá Peking:

Á þeim þeim tímum sem Stalín marskálkur réði ríkjum austur í Sovétinu var ákveðið, að reisa syttu til heiðurs þjóðskáldi Rússa, Aleksander Pusjkin (1799 til 1837).  Menn voru svona að velta því fyrir sér, hvort reisa skyldi skáldinu einfalda standmynd, eða sýna hann, t.d. á hestbaki eða við skrifborðið sitt.  Sýndist sitt hverjum.  Niðurstaðan var sú, að reisa styttu af Stalín, þar sem hann var að fletta upp í ljóðum Pusjkins. 

Jamm.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband