Þrándur Thoroddsen - minning

Í dag var Þrándur Thoroddsen kvikmyndagerðamaður jarðsettur frá Bústaðakrirkju.  Því miður gat ég ekki fylgt honum til grafar sökum veðurs, en langar til að minnast hans, með eftirfarandi ljóði.

 

Hvort skal harma liðna tíð,
er vínið létti lund?
Þá saga mörg um sali flaug
er kætti guma geð,
af selungi sem drökknaði
og pólskri næturstund
og kardináli í Krakáborg,
þar við sögu kom.

Þar glas var fyllt
og glas var tæmt
í reykjarkófi þéttu
og staka hraut af vörum manns
til gamans drykkjudrótt
þótt broddur kannske stingi nett
í skráp er þoldi gnótt.

En nú er þögnuð röddin hrjúf
er huldi ljúflingsdreng.
Hann snertir ekki lengur
sinn káta sagnastreng.
En hvort skal harma liðna tíð,
er vínið létti lund?
Því svarar förukerling ein
er knýr á hvers þess dyr,
sem kembir hærur,-hokinn, einn
þótt forðum væri ungur sveinn.

***

Blessuð sé minning Þrándar Thoroddsen.


Er eitthvað að slá út í fyrir ríkissaksóknara?

Í dag er eitt ár liðið frá upphafi búsáhaldabyltingarinnar.  Ríkissaksóknari hefur ákveðið að halda upp á daginn með þeim sérstæða hætti, að birta ákæru gegn níu ungmennum sem í aðdraganda búsáhaldabyltingarinnar, réðust inn í Alþingishúsið þann 8. desember 2008. 

Fjarri sé mér, að mæla því bót, að fólk ráðist inn í Alþingishúsið og slasi jafnvel starfsfólk þingsins, eins og raun varð á í þessu tilfelli.  En tæpast er þó úr vegi, að skoða hlutina í réttu samhengi.  Nokkrum vikum fyrir þennan atburð hrundi bankakerfi þjóðarinnar, eftir að fjárglæframenn höfðu árum saman leikið lausum hala í skjóli „frjálshyggju" Sjálfstæðisflokksins, fyrst með dyggri aðstoð Framsóknarmanna og síðustu mánuðina með hjálp Samfylkingarinnar.  Ríkisstjórn Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar var ekki aðeins ráðþrota; hún var siðferðislega gjaldþrota.  Gátu menn vænst annars en illinda?

Endanlega sauð svo upp úr þann 20. janúar árið 2009.  Þann dag var lögð fram á Alþingi tillaga nokkurra íhaldspilta um áfengissölu í almennum verslunum.  Var hægt að ímynda sér fáránlegra viðfangsefni fyrir Alþingi, eins og allt var í pottinn búið?

Almenningur lítur á embætti ríkissaksóknara, sem hluta af valdakerfi landsins.  Nú, fimmtán mánuðum eftir hrunið, hefur ekki einn einasti af höfuðpaurum þess verið dreginn fyrir dóm, hvorki menn úr viðskiptalífinu, stjórnmálaflokkunum né embættiskerfinu. 

Væri nú ekki ráð, að þeir sem sköpuðu það ástand, sem olli ólátunum í Alþingsihúsinu þann 8. desember 2008 væru látnir svara til saka, áður en hinir, sem illu heilli misstu stjórn á skapi sínu verða dæmdir, eða er svo komið, að yfirvöld hafa gleymt samhenginu milli orsaka og afleiðinga?


Sálmasöngur í hörmungum

Það var merkilegt að heyra fréttina af íslenska guðfræðinemanum, sem staddur var á Haíti, þegar hörmungarnar dundu þar yfir.  Hann kom þar að, sem ungt fólk, sem safnast hafði saman á íþróttavelli, söng sálma.  Í sjálfu sér er það ekkert undrunarefni; það er ekkert nýtt, að fólk finni Guð, þegar neyðin sækir að.  Það sem var athyglisvert við frásögn guðfræðinemans var það, að þessi sjón vakti hann til umhugsunar um það, hvort hann, sem lært hafði guðfræði í sjö ár, þekkti Guð.

Ég þekki ekki þennan unga mann og ég get ekki sett mig í spor hans, mitt í öllum þeim hörmungum, sem hann varð vitni að.  En viðbrögð hans voru sönn og einlæg.  Auðvitað sakar ekki, að menn leggi fyrir sig guðfræði.  En trúin finnur sér samt sem áður leið að hjartanu, ekki heilanum.


Tryggja prófkjör lýðræði?

Þegar stjórnmálaflokkarnir tóku að raða á framboðslista með prófkjörum á áttunda áratug síðustu aldar, töldu menn, að þar með væri stigið stórt skref í lýðræðisátt.  Draga mundi úr ofurvaldi flokksleiðtoga, þar eð þeir hefðu ekki lengur úrslitaáhrif á niðurröðun á framboðslista.  Lýðræðið yrði því öflugra en fyrr.

Því miður gekk þetta ekki eftir.  Eins og önnur mannleg viðfangsefni krefjast stjórnmál reynslu.  Gamla kerfið, þar sem kjörnefndir gerðu tillögu um framboðslista, tryggði alla jafna, að þingmenn og fulltrúar í sveitastjórnum hefðu reynslu.  Þetta breyttist með prófkjörum.

Reynslan sýnir okkur, að prófkjörin tryggja þeim frama í stjórnmálum, sem fólk veit hvernig lítur út.  Hvað skyldu margir hafa farið á þing eða í borgarstjórn, út á það eitt, að hafa verið sjónvarpsfréttamenn?

Ég man vel eftir einu dæmi.  Ég starfaði þá hjá ónefndum stjórnmálaflokki.  Kemur þá einn vinnufélaga minna og biður mig að koma á skrifstofu sína.  Þar kynnti hann mig fyrir manneskju, sem ég hafði aldrei séð.  Ég hafði þá búið utanlands um tíma og það því farið framhjá mér, að hér var „sjónvarpsstjarna" á ferðinni.  Þegar hún var farin, spurði vinnufélagi minn, hvernig mér litist á viðkomandi í framboð.  Ég vissi ekki almennilega hverju svara skyldi.  Þá benti félagi minn mér á, að þar sem um vær að ræða „sjónvarpsstjörnu", mundi það spara flokknum 7.000.000 króna í kynningarkostnað, að bjóða hana fram.  Er þetta lýðræði?

Önnur hætta, sem af prófkjörum stafar, er mútustarfsemi.  Það kostar peninga að bjóða sig fram í prófkjöri.  Sumir eyða milljónum í tilstandið; milljónum, sem þeir eiga ekki sjálfir.  Þá koma auðmenn og fyrirtæki þeirra til skjalanna og reiða fram féð.  Er einhver svo barnalegur á Íslandi enn þann dag í dag, að halda, að þeir geri það endurgjaldslaust?

Nú um helgina kynntu Sjálfstæðismenn og Samfylkingarmenn í Reykjavík frambjóðendur til prófkjörs vegna komandi hreppskosninga þar í bæ.  Það eitt, að þeir skuli halda sig við prófkjörsniðurröðun á framboðslista, bendir sterklega til þess, að þessir flokkar hafi ekkert lært af því, sem gerst hefur í landinu undanfarin misseri.  Það er skaði.


Fróðlegur þáttur, „Í vikulokin"

Í morgun hlustaði ég á þáttinn „Í vikulokin".  Í þessum þætti fara fram klukkustundar langar umræður um þjóðmál líðandi stundar.  Óneitanlega er misjafnt, hvernig til tekst.  En að þessu sinni var bæði skemmtilegt og fróðlegt, að hlusta á þáttinn.  Þar voru mættir til leiks þrír fyrrverandi alþingismenn, þau Guðrún Ögmundsdóttir, Björn Bjarnason og Guðni Ágústsson.

Þegar stjórnmálamenn, sem enn sitja á þingi eða í sveitarstjórn koma saman í útvarpi eða sjónvarpi, fara umræðurnar oftar en ekki út í innihaldslaust karp og jafnvel skítkast.  Virðingin fyrir lýðræðinu fer veg allrar veraldar.  En nú brá öðru vísi við; þessir fyrrverandi þingmenn ræddu málefni líðandi stundar af hógværð og yfirvegun.  Ég segi kannske ekki, að þeir hafi verið öðrum þrætugjarnari, meðan þeir sátu á Alþingi.  Eigi að síður vöknuðu þeir þankar í mínum kolli, hvort virk þátttaka í stjórnmálum spillti mönnum, gerði þá þrasgjarna og ómálefnalega.  Það er skaði, ef svo er komið og dulítillar umhugsunar vert.


L.Í.Ú. hótar að kalla flotann í land

Sennilega hefði útrásarruglið aldrei orðið að veruleika, nema vegna þeirrar gífurlegu auðsöfnunar, sem kvótakerfið í sjávarútvegi orsakaði.  Og það má ríkisstjórnin eiga, þótt mislagðar séu henni hendur að ýmsu leyti, að hún hefur uppi áætlanir um leiðréttingu á þeirri hringavitleysu.  Sumum þykir hún að vísu stíga full varlega til jarðar í þessum efnum.  En aðgát kemur aldrei að sök.

Greinilegt er, að kvótakóngarnir, sem ráða L.Í.Ú. sætta sig ekki við minnstu leiðréttingu á þessu mesta misrétti í sögu þjóðarinnar.  Nú hóta þeir, að kalla fiskveiðiflotann í land, verði ekki farið að þeirra vilja.  Vilji meirihluta þjóðkjörins Alþingis kemur þessum herramönnum ekkert við. 

Skyldi maður kannast við tóninn?


Ólafur Ragnar dáður af ókunnugum

Það var fróðlegt að hlusta á Svan Kristjánsson prófessor í Speglinum í kvöld.  Þar fjallaði hann um synjun Ólafs Ragnars Grímssonar á Icesavelögunum.  Sýndi hann fram á það með rökum, hversu arfavitlaus sú ákvörðun forsetans var, að skrifa ekki undir lögin. Taldi hann raunar rökrétt, að ef Bretar og Hollendingar vildu á annað borð semja upp á nýtt, færi Ólafur Ragnar fyrir samninganefnd okkar, enda augljóst, að hann mundi ekki skrifa uppá aðra samninga, en þá, sem honum væru þóknanlegir.  Auk þess benti hann á, að í raun væri landið stjórnlaust eftir synjun forseta.

Orð Svans eru ekki síst athyglisverð í ljósi þess, að þar mælir gamall vinur og samstarfsmaður Ólafs Ragnars.  Annar gamall vinur forsetans, Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, kom fram í fréttum Ríkissjónvarpsins í kvöld.  Þar fjallaði hann um þá ákvörðun sína, að hætta við að fara með forsetanum í opinbera heimsókn til Indlands.  Lét hann þess getið í því sambandi, að forsetinn hefði vafalaust aðra en sig, til að bera fyrir sig töskurnar austur þar.

Fyrir nokkrum vikum naut Ólafur Ragnar Grímsson trausts aðeins 1% þjóðarinnar.  Nú dásama 65% hennar þennan sama mann, ef marka má skoðanakannanir.  En það leynir sér ekki, að þeir sem þekkja hann best, hafa á honum mestu skömmina.


Verðfall á skoðunum Bjarna Ben.

Litlir menn hafa ekki efni á stórum ákvörðunum.  Þetta veit Bjarni Ben. formaður Sjálfstæðisflokksins.  Því hefur hann ákveðið, að skipta um skoðun varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave, jafn ört og aðrir skipta um sokka, en sem kunnugt er, falla skoðanir í verði, eftir því, sem oftar er um þær skipt án breyttra forsenda.  Fyrst lagði hann til, að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um Icesave.  Þegar sú tillaga var feld á Alþingi og forseti neitað að skrifa undir lögin, sem samþykkt voru um Icesave, lagði hann til, að leitað yrði leiða, til að komast hjá þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það skyldi þó ekki vera, að ég fylgist ekki nógu vel með því, sem gerist á Alþingi?  Ég hef að minnsta kosti aldrei heyrt því fleygt, að umræddur B.B. hafi stigið þar í pontu á þriðja glasi.


Ingibjörg Sólrún í Fréttablaðinu

Vert er að gefa gaum grein Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í Fréttablaðinu í dag.  Þar hvetur hún til sátta um lausn Icesave-deilunnar og samheldni þjóðarinnar í því máli.

Um sátt og samlyndi þjóðarinnar varðandi hrunið og afleiðingar þess, verður þó aldrei að ræða, fyrr en lögum hefur verið komið yfir helstu glæpamenn þjóðarinnar og þá stjórnmálamenn, sem gerðu þeim kleyft, að stunda sína skuggalegu iðju.  Þar til það verður gert, er allt stjórnkerfi landsins ómerkt og að engu hafandi.

Ástæða er til að óttast, að verði ekkert að gert í þessum málum, muni lögleysa og hnefaréttur götunnar fyrr en varir vaða uppi.  Hvernig getur nokkrum lifandi manni dottið í hug, að þjóðin sætti sig við það, að kúlulánaliðið raði sér á jötuna í fjármálakerfi landsins og Björgólfur Thor fái opinbera fyrirgreiðslu til stórframkvæmda í landinu?

Grein Ingibjargar Sólrúnar í Fréttablaðinu í dag, bendir til meiri hógværðar, en hún sýndi, þegar hún var virk í stjórnmálum.  Það ber að meta að verðleikum.  Eigi að síður er til lítils, að fjalla um stjórnmál án samhengis við vaxandi vantrú almennings á öllu því, sem að þeim lýtur.


Nú þarf að beita 11. grein stjórnarskrárinnar

Forseti Íslands hefur sem kunnugt er, kosið að túlka 26. grein stjórnarskrárinnar á þann veg, að jafnvel sé hægt að skjóta milliríkjasamningum, sem þess utan varða fjárhagslegar skuldbindingar ríkisins, undir atkvæði þjóðarinnar.  Sú túlkun hans hlýtur að teljast harla vafasöm, svo vægt sé til orða tekið. 

Í raun er forsetinn að innleiða stjórnkerfi, sem þjóðin hefur aldrei samþykkt, þ.e.a.s. einskonar sambland af þingræði og forsetaræði.  Þetta er undarlegt í ljósi þess, að flestir landsmenn telja brýna þörf á styrkingu þingræðis.

Alþingi hefur illa staðið í lappirnar gagnvart framkvæmdavaldinu.  Vilji það reka af sér slyðruorðið, ætti það að svara nýjasta sviðsverki Ólafs Ragnars Grímssonar með beitingu 11. greinar stjórnarskrárinnar, en þar segir m.a.:

„Forseti verður leystur frá embætti, áður en kjörtíma hans er lokið, ef það er samþykkt með meirihluta atkvæða við þjóðaratkvæðagreiðslu, sem til er stofnað að kröfu Alþingis, enda hafi hún hlotið fylgi 3/4 hluta þingmanna".

Þingræðið er hornsteinn þess lýðræðis, sem þróast hefur á Íslandi frá endurreisn Alþingis 1845.  Þjóðinni er fyrir bestu að efla það.  Þess vegna verður hún að losna við núverandi forseta lýðveldisins.  Leiðin til þess, lggur í gegnum 11. grein stjórnarskrárinnar.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband